Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Að rekja slóð

Það er mjög mikilvægt að láta hunda fá næga hreyfingu á hverjum degi. En svo er líka mikilvægt að gefa þeim eitthvað að hugsa um, æfa heilann lika.

Þið getið líka bara ímyndað ykkur ef ykkar líf væri bara að fá að fara út að labba nokkrum sinnum á dag og ekkert annað. Ykkur myndi fara að leiðast mjög fljótt og byrja að ganga á veggina heima.

Og þetta gera hundarnir líka, þeir fara sjálfir að finna eitthvað að gera og ef þeir fá að ráða alveg sjálfir þá er það oft eitthvað sem er ekki sniðugt að þeir geri, t.d. naga borðfót, borða fjarstýringuna og svo framvegis.

Ef maður æfir heilann aðeins þá er hundurinn þreyttur þegar er hvíldartími og sefur bara. Nennir ekkert að gera af sér.

Svo hvað er hægt að gera til að æfa þá?

Það er t.d. að rekja slóð. Hundar eru með nef sem þeim finnst ofsalega gaman að þefa gegnum og leita að hlutum gegnum lykt. Þetta notum við sem heilaæfingu. Þeir þurfa að einbeita sér rosalega þegar þeir eru að þefa upp slóð svo þeir verða mjög hamingjusamlega þreyttir restina af deginum og jafnvel daginn eftir líka ef þeir voru að lengi.

Ég mæli með því að fara á námskeið í þessu til að læra meira, því það er erfitt fyrir mig að útskýra hvernig æfingarnar eru.

En eina grunnæfingu get ég reynt að útskýra:

Að láta hundinn þefa upp fótsporin þín.

Veljið stað sem ekki er mikil umgangur t.d. grasblett sem ekki búið er að labba mikið á síðustu dagana.  Kannski er bara best að fara út í móa eða finna tún einhversstaðar.
Bindið hundinn við eitthvað.
Takið fram pylsu sem þið hafið skorið í litla bita heima og sett í poka.
Finnið reit sem þið sjálf munuð finna aftur, þar á slóðin að byrja.
Krafsið vel þar með skónum, til að virkilega koma lyktinni ykkar í grasið. Setjið svo nokkra pylsubita í sporið.
Labbið barnaskref í beina línu og setjið einn pylsubita í hvert skref.
Í byrjun er nóg að hafa slóðina svona 10, 20 metra á lengd og alveg beina.
Þegar þið eruð komin með nógu langa slóð, þá gerið þið endareit. Þar krafsið þið líka í jörðina vel og setjið hrúgu af pylsubitum í skrefið.
Svo hoppið þið eins langt og þið getið beint áfram frá endareit, þannig að hundurinn á ekki að finna slóðina áfram.
Labbið svo beint áfram í 5 - 10 metra og farið svo til hægri eða vinstri til baka til hundsins. Passið að vera langt frá slóðinni til baka þannig að þið takið stóran sveig til að rugla ekki hundinn.

Svo er bara að ná í hundinn, sýna honum byrjunarreitinn og benda á pylsurnar. Þegar hann er búin með þær gá hvort hann hefur ekki komist á slóðina og labbar áfram, ef ekki sýnið þá næsta og gá hvort hann nær þessu þá og svo framvegis.
Reglan er að ef hundurinn labbar framhjá einum pylsubita í slóðinni má hann ekki fara til baka og ná í hana, hann á alltaf að labba áfram. Og þið eigið alltaf að vera fyrir aftan. Best er að hafa hann í bandi í þessum æfingum.
En passið að segja ekki NEI, bara benda honum á næstu pylsu í staðinn eða fá hann áfram.
Svo þegar hann er komin á lokareitinn þá er HRÓS DAUÐANS og klapp og fullkomin hamingja og þetta var svo gaman og já virkilega sýna honum að þið séuð ánægð með hann. Fara kannski strax að leika við hann þegar hann er búinn með pylsurnar.

 

Sumar hundategundir eru betri í þessu en aðrar, t.d. Border Collie, Labrador og Schäffer eru duglegir að reka slóð. Og svo er kannski Jack Russel og Tjúinn lengur að fatta. En allir hundar hafa þetta náttúrulega í sér og endilega prófið
Þið munuð eftir nokkur skipti taka eftir hvað honum finnst þetta geðveikt gaman.

T.d. æfði ég þetta með Labrador tík sem vill bara éta allt sem hún sér.. og henni fannst þetta svo gaman að eftir fyrsta skiptið gleymdi hún öllum pylsunum og þaut áfram.

Ég vil benda á að í þessari æfingu má hundurinn toga í bandið. Þið eigið bara að fylgja, ef þið eruð með stóran hund sem finnst þetta mjög gaman og byrjar fljótt að hlaupa er sniðugt að kaupa langa línu svona 15 - 20 metra og hanska.... og bara hlaupa svo á eftir.

Þegar hundurinn fer léttilega með beina línu má fara að gera smá sveig á slóðina, en forðist að taka 90 gráðu beygju því það er erfitt fyrir hundinn svona í byrjun. Og ef þetta er of erfitt í byrjum gefst hann upp og getur fengið lélegt sjálfstraust í þessu. Og það viljum við sko ekki.

Eftir nokkrar æfingar þegar hundurinn er farin að fatta að hann á að þefa, þá byrjið þið að setja pylsu í kannski annað hvert spor og svo að fara taka stærri spor eins og maður labbar venjulega.
Svo finnið þið bara hvað hann er góður í þessu, ef hann er virkilega að fíla það að rekja slóð mun hann lítið pæla í pylsunum.

Svo er lika hægt að nota uppáhalds leikfangið.. búa til slóð af því.

 

Það er margt hægt og þess vegna fínt að fara á námskeið til að læra meira um svona æfingar.

Svo allir út að reyna þetta og komið svo inn og kommentið um hvernig þetta gekk og komið með spurningar ef það er eitthvað.

 


Mikilvægt að klippa klær og bursta tennur reglulega.

Ef þú hefur ekki efni á að fara til dýralæknis og láta svæfa eða róa hundinn til að klippa klærnar reglulega þá er eitt sem þú verður að gera frá því hann er lítill hvolpur.

Það þarf ekki að klippa klærnar á hvolpum... ekki fyrr en svona 6 til 8 mánaða gömlum. En þá er of seint að venja þá við.

Hundar eru asnalega mikið hræddir um lappirnar sínar. Til þess að mega klippa klærnar í framtíðinni verðurðu að byrja á því þegar hann er lítill.
Svo fáðu þér hundaklippur "strax í dag" ( hehe ala vörutorgs gaurinn óþolandi).

Byrjaðu svo að "klippa klær" það er ekkert að klippa en takið smá af og svona þykist klippa þegar þið eruð að kúra. Þarf ekkert að taka allar í einu en bara smá í einu. Þá venst hvolpurinn að þið séuð að atast í loppunum og verður ekkert að stressa sig yfir þessu. 

Svo er mjög gott að gera þetta oft þá minnka þær smám saman, sko "bleika" svæðið sem ekki hægt er að klippa í. Ef nöglin er hvít þá sést vel þetta bleika svæði og ALLS EKKI KLIPPA Í ÞAÐ. Ef þú gerir það er það mjög vont og mun hvolpurinn aldrei treysta þér aftur með neglurnar, svo farðu varlega.c_documents_and_settings_heidrun_k_johansen_my_documents_my_pictures_hundamyndir_nailcutting 
Þetta bleika svæði dregur sig til baka eftir því sem þú klippir oftar. En ef þú klippir sjaldan þá vex það til að verða lengra og lengra svo það verður ekkert hægt að klippa... en samt klærnar ofsalega langar.

Klærnar fara ekki vel með parketið svo það er mjög gott að hafa bara klippurnar á sófaborðinu og klippa eina eða tvær neglur þegar verið er að kúra

Meira um hvernig á að klippa klær finnur þú hér

Ég var einu sinni með hvolp og gerði þetta ekki. Ég hafði ekki efni á klippum...(það var afsökunina mín).
Svo þegar hvolpurinn var orðinn 8 mánaða þurfti ég að fara að klippa, fékk mér klippur og allt og fór að reyna. En það gekk ekki mjög vel, henni fannst mjög asnalegt að hafa mig fiktandi í löppunum sem ég hafði aldrei gert áður og dró þær alltaf til sín. Svo ég fór að múta henni með nammi og gat þá klippt smá. En svo klippti ég aðeins í það bleika eða eitthvað svo hún vældi smá og kippti til sín löppinni. Eftir það mátti ég aldrei klippa. Þetta var orðið svaka vandamál.
Hefði ég bara gert þetta frá byrjun þá hefði þetta verið ekkert mál.

Fikta í löppunum og klónum þegar er verið að kúra.. getur nuddað þær svo hvolpinum finnist þetta bara gott, þá kemur eitthvað jákvætt úr þessu.
Þetta gildir líka um eyrun og munninn. Verið oft að fikta í eyrunum og munninum svo hann venjist þessu líka. Dýralækninum mun líka vel við það.

Ef þú ætlar að sýna hundinn er venjan að dómarinn kíki á tennurnar, þá á hundurinn að leyfa ókunnugum að koma við þær.c_documents_and_settings_heidrun_k_johansen_my_documents_my_pictures_hundamyndir_cleandogteeth_1l

Bursta tennurnar?  Jú jú... núna er það komið í ljós að maður á að bursta tennurnar og er sagt svona 3 - 4 sinnum í viku. Þá virkar fínt svona barnatannbursti og til er hundatannkrem í dýrabúðum en það er ekki nauðsynlegt, það er ekki sannað að hundatannkrem hafi jákvæð áhrif en það er ekki búið að afsanna það heldur, svo fylgist bara með hvað þeir segja um þetta mál i framtíðinni. Að bursta er mikilvægt en það má ekki nota okkar tannkrem því hundarnir gleypa tannkremið og það er ekki hollt fyrir þá.

Þið sem eruð með ketti eigið líka að bursta í þeim tennurnar reglulega.

Meira um að bursta tennur finnur þú hér

 

 


Að setja reglur.

Það er mikilvægt að setja reglur strax þegar hvolpur kemur í hús. Allir fjölskyldumeðlimir verða að setjast niður saman og ræða hvað má og hvað má ekki. Svo verða ALLIR að fylgja því.

Þetta með að "leyfa honum nú að vera aðeins hvolpur"  Er bara BULL OG VITLEYSA!!!!

Það sem hvolpurinn má fyrstu mánuðina vill hann og mun gera restina af lífinu. Svo hugsið ykkur tvisvar um ef þið leyfið honum að koma upp í sófa, þá má hann það líka þegar hann er orðin 30 kg og hundskítugur og hvað þá þegar hann fer úr hárum tvisvar á ári í rúman mánuð í senn.

Svo er margt annað sem hægt er að setja reglur um og á það við daglega hlýðni og fá þá til að róa sig niður í sumum rútínum.

T.d. að fara út. Það er rosalega góð venja að láta hundinn setjast áður en dyrnar eru opnaðar og segja svo gjörðu svo vel og labba út. Ef þetta er alltaf gert lærir hann fljótt að bíða eftir þessu orði áður en hann stormar út. Þegar hann prófar að hlaupa út án þess að það sé í boði, þá reynið ná í skottið á honum og henda honum aftur inn. Ef hann náði að fara út, þá bara labba að honum úti og fara með hann inn, loka dyrunum, segja honum að setjast, opna og bíða ..... bíða.... bíða.. og svo "gjörsvovel" og þið labbið saman út í lífið. Það þýðir sem sagt ekki að skamma hann ef hann náði að fara út. Aldrei skamma nema í augnablikinu sem hann gerir það sem má ekki, annars veit hann ekki af hverju þú varst að skamma. Hann getur hafa verið að þefa þarna úti og þú kemur stormandi og hundskammar hann... hann skilur ekkert í af hverju hann mátti ekki þefa.

Sama á við bíla. ALDREI að leyfa hundi að hlaupa út sjálfum. Þeað er líftrygging hundsins og annarra að hann bíði þar til þú gefur merki um að hann megi hoppa niður. Gjörsvovel er fínt að nota hér líka.

Ég skrifa GJÖRSVOVEL því það er þannig sem hundarnir heyra þetta. Alltaf segja eins og hafa þetta stutt og lagott.

Þegar þið eruð að borða kvöldmat saman er góður siður að hundurinn betli ekki. Sætt þegar hann er hvolpur, en eftir 2 ár er þetta ekki sætt lengur heldur bara pirrandi.
Því verða allir að vera sammála um að gefa hundinum aldrei neitt annað en hundamat (og þá gott þurrfóður frá dýrabúð. Eukanuba, Hills og Royal Canin er gott fóður. Eukanuba best að mínu mati). Þegar þið sitjið og borðið er fínt að reka hundinn í burtu. Segja honum að fara að leggja sig eða bara fara og ýta honum í burtu ef hann situr þarna og er að horfa á ykkur. Ef hann aldrei fær neitt þá betlar hann ekki. Ef hann hefur fengið stundum mun hann alltaf reyna.

Ef þið eigið það til að borða við sjónvarpið og hafa mat á sófaborðinu er líka góður siður að leyfa hundinum ekki að koma með trýnið yfir borðið og ekki setja hausinn á borðið. Og passið matinn á borðinu og segið nei um leið og hann er að hugsa um hvort hann eigi að reyna að fá sér bita.

Það má alveg loka af hluta af húsinu fyrir hundinum. T.d. banna honum að fara inn i viss herbergi. Bara segja nei við dyrnar ef hann ætlar inn. Það er mjög þægilegt upp á framtíðina að gera og þrif  að hafa ekki hundahár út um alla íbúð.

Rúmið ætti að vera alveg bannaður staður, ef þú ert með lítinn hund er það kannski ekkert slæmt. En hugsið bara til framtíðar þegar hann er lítill er sætt að sofa með hann hjá sér, en hann stækkar. Hundar lifa lengi og þeir fara úr hárum Ég skal segja ykkur svona í algjörum trúnaði að stunda kynlíf í rúmi sem hundur sefur venjulega í og er í hárlosi þó svo það sé nýbúið að skipta á rúminu er ekki nice..
Svo eru hundar mjög mikið að pæla í status í flokknum sínum og fái hann að sofa upp í hjá pabba eða mömmu eða bæði heldur hann að hann sé hátt settur í fjölskyldunni og ef börnin sofa í öðru herbergi getur hann talið sig hærri en þau og það getur verið hættulegt ef honum dettur einhverntíma í hug að fara að siða þau til.

Góð leið til að segja honum hvar hann er staddur, sem sagt lægstur, er að þegar "húsbóndinn" kemur heim úr vinnu þá á hann að heilsa upp á konuna og börnin fyrst... og síðast hundinn. Aldrei hundinn fyrst.

Góður siður er líka að leyfa hundinum ALDREI að hoppa upp á mann, eða hvað þá ókunnuga, venja hann á að setjast og klappa honum svo. Segja honum að setjast þegar ókunnugir vilja heilsa upp á hann og láta fólk bíða með klappið þar til hann er sestur og rólegur.

En setjið ykkar reglur, það er fínt að hafa reglur, hundurinn skilur þá meira hvað má og má ekki og verður sáttur. Ef hann hefur strax reglur að lifa eftir þá verður hann ekki eins æstur karakter.

Það sem á að gera ef hann brýtur settar reglur er að segja nei um leið og hann er að gera ranga hlutinn. Og ef hann hættir ekki strax þá fara til hans og t.d. ýta honum af sófanum ef hann lagðist upp í eða færa hann frá atvikinu.
Ef þið segið NEI við hundinn þá verður hann að hlýða og ef hann hættir ekki þá á strax að leiðrétta hann.
Endurtek að það þýðir ekkert að skamma eftir á.

Það er fjárfesting fyrstu mánuðina eða fyrsta árið að fylgjast vel með honum og ala hann vel. Annars verður þú fljótur að setja út auglýsingu "hundur gefins" við 8 mánaða aldurinn þegar gelgjan tekur við.

 

Cool

 

 


Hundaþjálfun

Heiðrún Klara Johansen

Sjá einnig www.heidrunklara.is 

Frá hvolpa stælum til fullorðins vandamál. Flest alt er hægt að laga með því að skilja hundinn betur. Þið með hvolpa, fyrstu færslurnar eru mikið um hvolpauppeldi. Svo endilega lesið allar færslurnar til þess að fá sem bestan skilning á því hvernig mínar aðferðir virka.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband