Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Pissa úti takk.

Það er oft sem nýir hundaeigendur eiga í vandræðum með að hvolpurinn pissar og kúkar inni.

Til eru misjöfn ráð við því og vil ég hér taka upp nokkur sem virka ekki:

  • Setja dagblöð út um allt og leyfa honum að gera á þau.  Það virkar ekki því þetta ruglar hann bara meira og hann fattar ekkert að hann á eiginlega að fara út.c_documents_and_settings_heidrun_k_johansen_my_documents_my_pictures_hundamyndir_puppy_pee_1
  • Skamma hvolpinn þegar hann gerir inni.  Það virkar ekki því hundurinn heldur þú sért að skamma hann fyrir að gera þarfir sínar og verður bara stressaður þegar hann þarf að pissa/kúka.
  • Ýta hvolpinum að pissinu/kúknum og segja hart nei. Þetta virkar ekki út af sömu ástæðu og í punktinum hér fyrir ofan.

Hvolpar eru með mjög litla pissublöðru. MJÖG litla, sem þýðir að ef eitthvað kemur inn, þá þarf eitthvað að fara út.
Hvolpar sem eru 2 mánaða þurfa að pissa svona á korters fresti. Þegar þú ert að koma heim með hvolpinn í fyrsta sinn, er mjög gott að fá hann heim t.d. á föstudegi og vera svo alveg í fríi næstu tvo daga til að geta verið með hvolpinum.
Það þarf að fara með hann út í garð á korters fresti fyrsta og annan daginn. Ef það er gert eru stórar líkur á að eftir þessa helgi verði hann orðinn vanur að gera úti og muni ekki pissa inni nema bara ef verður smá slys.
Ótrúlegt segirðu? Tveir dagar og hundurinn orðinn vanur að gera úti? Jú, ég held þessu fram og hef sjálf gert þetta með hvolpa, en til að þetta takist verður maður aðeins að vita meira um hvenær og hvernig og af hverju.

Hundar hafa sínar "reglur", eitthvað sem þeir fylgja er í eðlinu þeirra. Hvolpar vita bara þessar reglur og fylgja þeim.
T.d. er ein regla sú að hvolpar eru neðst og eldri hundar "fyrir ofan þá". Hvolpar vilja ekki ögra eldri hundum.
Þess vegna vilja hvolpar ekki pissa hvar sem er.  Að pissa er ekki bara að losa sig við vatn, heldur er það líka að merkja eins og flest okkar vita. Svo þar sem eldri hundur hefur pissað, vill hvolpur ekki pissa yfir. Þá er hann að ögra þeim eldri. Þess vegna eru hundar oft mjög lengi að pissa... þeir þefa um og eru að leita að stað þar sem er "óhætt að pissa".

Og þetta er þannig með litla hvolpa, þeir þora ekki að pissa úti og er "öruggast" að pissa inni. Þeir vilja samt ekki pissa inni en þeim finnst þeir hafi ekkert annað val. Best er þá að fara oft með hvolpinn út. Finna stað nálægt húsinu, kannski bara rétt fyrir utan dyrnar, eða bak við húsið.  Ef hvolpurinn pissar þar einu sinni er fínt að nota þennan stað þangað til hann finnur annan stað sjálfur.
Hrósaðu rosalega vel þegar hann pissar úti, klappaðu honum og leiktu við hann strax og hann er búinn.
Það er líka mjög hentugt þegar hann pissar að segja "pissa" svo eftir smá tíma fer hann að binda þetta orð við pissið og seinna meir geturðu sagt honum að pissa. Ef þú veist að þið eruð að fara í langan bíltúr eða þess háttar og vilt að hann pissi þá er voða gott að geta sagt pissa og hann fattar það og pissar.

Hundar vilja sem sagt ekki pissa þar sem þeir "búa" svo það er mjög auðvelt að venja þá á að gera úti.  

Hvolparnir eru eins og ég sagði áður með mjög litla blöðru og er fínt að vita þetta: c_documents_and_settings_heidrun_k_johansen_my_documents_my_pictures_hundamyndir_106155757bdibyv_ph

Hvert skipti sem hann hefur sofið, þarf hann að fara strax út.
Hvert skipti sem hann hefur drukkið, þarf hann að fara strax út.
Hvert skipti sem hann hefur borðað, þarf hann að fara strax út.
Hvert skipti sem hann hefur leikið sér í smá stund, þarf hann að fara strax út.

Það er ekkert víst að hann pissi í hvert skipti sem hann fer út, en þetta er mikilvægt að gera fyrstu dagana svo hann fatti að hann fær að fara oft út, að fara út er partur af lífinu og þá vill hann miklu frekar gera úti og mun læra það fyrr. 

Svo verið í fríi og hjálpist að fyrstu dagana eftir heimkomu, ég lofa því að það er þess virði. Ef þið gerið þetta ekki verðið þið sennilega næsta hálfa árið að þrífa piss og kúk af teppinu. Já teppið... hann mun alltaf velja teppið eða mottuna sem er erfiðast að þrífa. En ef þið pælið í af hverju, þá er það frekar augljóst. Hann finnur stað í íbúðinni þar sem pissið "hverfur" eins og á grasinu úti. Hann er sem sagt bara að reyna að hjálpa. Hann veit náttúrulega ekki hversu erfitt er að þrífa.

Fyrstu dagana fylgist með honum alltaf. Ef t.d. þið eruð öll inni í stofu og hann fer allt í einu af stað og fer fram á gang, farið þá á eftir honum til að gá hvað hann er að bralla. Það eru miklar líkur á að hann þurfi að pissa, þeir eiga til að draga sig svona frá hinum og eru að fara að leita að stað sem passar að pissa á. Farið þá bara strax út.
Svo ef þið sjáið hann þefa af gólfinu eða vegg eða einhverju þá getur verið að hann sé að leita að stað líka. Svo ÚT STRAX.
Gott er að segja t.d. "Förum út að pissa", þá lærir hann líka á það.

Svo þarf þolinmæði við þetta, hann mun kannski ekki pissa úti en það er mikilvægt að gefast ekki upp heldur hugsa bara "korters fresti". Ef hann er ekki búinn að pissa eftir 5 mín úti farið þá aftur inn og fylgist með honum því hann þarf að pissa og er oft sem þeir pissa um leið og komið er inn því það er öruggara. Þegar hann er komin inn eftir að hafa ekki pissað úti... standið hjá honum og fylgist með honum og ef það er langt síðan hann pissaði síðast vitið þið að hann þarf og þá er bara spurning um tíma hvenær hann lætur bununa falla. Líti hann út fyrir að vera hugsi og þefandi bíðið bara í smá tíma ( 1-5 min ) og farið svo aftur út.
Þetta er gert fyrstu 2 dagana. Þið getið ekki gert neitt annað þessa helgi.

Ef hann skyldi nú að pissa inni, ef þið sjáið hann pissa farið bara að honum strax, takið hann upp og hlaupið út. Ekki skamma hann eða segja nei. Hann veit hvort eð er ekkert hvað það þýðir og þess vegna óþarfi. Svo best er að ná honum þegar hann er að fara AÐ pissa og þá hlaupa með hann út. Ef hann er búin að pissa og þið sáuð það ekki, þá þýðir það að þið verðið að fylgjast betur með honum.  Það þýðir ekkert að skamma og sérstaklega ekki eftir á.
Ef hann pissar inni og hann er búinn þegar þið náið að hlaupa út, þá fara bara samt strax út. Ekki hætta við að fara út.

Athugið að þetta sem ég skrifa fyrir ofan er bara fyrir fyrstu dagana. Það er alveg þess virði að fórna sínum frítíma í hvolpinn til að losna við þetta vandarmál sem fyrst. Ef þú átt heima á jarðhæð er þetta ekkert mál. Verra ef þú átt heima á annarri hæð eða ofar, en það er samt engin afsökun. Þið vissuð það þegar þið fenguð hvolpinn og þið verðið bara að hlaupa upp og niður. Og best að nefna þá að þið verðið að halda á hvolpinum upp og niður tröppur fyrstu mánuðina. En það eina sem þið tapið á þessu hlaupi eru nokkrar kaloríur svo það er ekkert slæmt.

Ef þú ert ekki í standi til að fara svona oft út þá er sniðugt að fá hjálp þessa helgi. Fá einhvern til að hlaupa með þér eða fyrir þig.

Blaðran á hvolpinum stækkar hratt og getur hann farið að halda meir og meir í sér næstu vikur. Svo þetta með á korters fresti er bara fyrstu dagana svo má fara sjaldnar, breyta í hálftíma og svo klukkutíma og svo einn og hálfan og svo koll af kolli.

Varðandi fyrstu næturnar farið þið með hann út þegar þið farið að sofa og svo vaknið bara þegar hann vaknar og farið strax út! Ef hann vaknar um miðja nótt er gott að fara út með hann þá. En þetta á að vera óþarfi eftir nokkra daga/viku. Þá á hann að geta haldið í sér í átta tíma yfir nóttina.

 

Svo, munið að fara alltaf á sama stað bara rétt fyrir utan húsið, finna stað sem aðrir hundar hafa ekki aðgang að eða lítinn aðgang. Þanni verða meiri líkur á að hann þori að gera þar.
Hvolpar á þessum aldri þurfa ekki að fara út að labba, það kemur seinna. Núna er nóg að fara bara rétt út til að kíkja og pissa og kúka.

Litlir hvolpar elta "mömmu sína" vel, svo það er kannski ekki þörf á bandi strax. Metið það sjálf eftir hvar þið búið. Þegar þið eruð að venja á að pissa úti er kannski ekki sniðugt að hann sé að pirra sig á hálsól og bandi í leiðinni.
En þetta verðið þið að meta sjálf. Mér finnst best að hafa hvolpana eins mikið frjálsa og hægt er og á það líka við fullorðna hunda. Það gerir þá hlýðnari og þeir halda sér meira hjá manni.
Hundar sem alltaf eru í bandi og fá aldrei að vera frjálsir geta fengið algjört kikk og farið að hlaupa á fullu ef þeir skyldu losna einhverntíma, þá heyrir maður bara einhvern eiganda öskra alveg á fullu einhverstaðar í fjarska. hehehe...
En ég ætla skrifa um það seinna þegar ég fer inn á hlýðnina.

Ég vil með þessu bloggi fræða Íslendinga betur um hunda svo hundarnir hagi sér betur. Mér finnst nefnilega allt of miklir fordómar í gangi og mikið af "hundar bannaðir" skiltum út um allt. Ef allir hundaeigendur kenna sínum hundum rétt, þá kannski slaka yfirvöldin aðeins á og leyfa okkur að vera með hundana á fleiri stöðum.

SVO ÞESSVEGNA EIGA ALLIR AÐ TAKA UPP SKÍTINN EFTIR HUNDINN SINN!

 

 


Að fara með hvolpinn heim.

Núna ertu búin að velja þér sætan lítinn hvolp. Þá er komið að því að undirbúa heimilið fyrir hvolpinn.

Það sem þarf að kaupa er þetta:

  • Þurrfóður, spyrjið í dýrabúðinni með hverju þau mæla fyrir hundategundina þína.
  • Búr (ég ætla að skrifa af hverju búr er mikilvægt)
  • Mjúka dýnu sem seinna meir fer í búrið svo það er fínt að kaupa eina sem passar í það.
  • Matarskálar, naglaklippur, nagbein, leikföng, bursti, hálsól og taumur. Ég mæli með að þið kaupið ekki svona "flexi-band", heldur frekar taum sem er góð lengd á.

 

Búr er eitthvað sem margir halda að sé neikvætt fyrir hundinn. En ef maður kynnir búrið fyrirc_documents_and_settings_heidrun_k_johansen_my_documents_my_pictures_hundamyndir_cadb2lpwca96824pca3sq7pecak1uvchca hvolpinum á réttan hátt mun hann fljótt slappa af í því og þetta verður hans staður þar sem hann fær frið og slappar algjörlega af.
Svo þegar hann er einn heima er mjög gott að hafa hann í búrinu, þá þarf hann heldur ekki að vakta alla íbúðina og slappar betur af.
Þeir sem venja hundana á búr, sjá fljótt að hann fer oft sjálfur inn og leggur sig (ath, ekki nota búrið fyrstu vikuna sem hann er heima).

Flexi band er hlutur sem kannski átti aldrei að búa til. Það kennir hundinum að toga í bandið. Það er ekki öruggt, læsingin getur allt i einu klikkað og hefur gerst að hundar verða fyrir bíl því læsingin bilaði.
Ég mæli með að kenna hundinum fyrst að ganga fallega í bandi án þess að toga og svo seinna meir þegar hann er orðinn eldri að fá þér þá flexi ef þú endilega vilt.

 

Hafa hundinn í fanginu og fá einhvern annan til að keyra heim.
Núna ertu komin með allt á hreint og tilbúin að fara ná í hundinn. Fáðu einhvern með þér að ná í hann.  Taktu hann í fangið og haltu á honum meðan hinn aðilinn keyrir. Ef hann ælir verður bara að hafa það. Alls ekki skamma hann eða gera eitthvað sem hræðir hann meira.
Þetta er stór breyting sem gerist núna og best að reyna hafa þetta sem rólegast fyrir hann.
Það er ekki mælt með því að setja hundinn í skottið eða einan í bílinn í fyrsta sinn. Ef þú gerir það eykur þú líkurnar á að hundurinn verði bílveikur/hræddur í framtíðinni. Það kemur að því seinna að venja hann á að vera í skottinu t.d. Ekkert er "eyðilagt" með því að halda á honum í fyrsta skiptið.

Leyfið hundinum að þefa og labba um í friði
Þegar komið er heim er mikilvægt að leyfa hvolpinum að kíkja á nýja heimilið sitt i friði og ró. Ef það eru börn á heimilinu eru þau væntanlega mjög æst og vilja leika við hundinn. En verið endilega búin að útskýra fyrir þeim að fyrsta daginn þá verða þau að láta hundinn vera. Leyfa honum að þefa og labba um í friði.
Þá róast hann fljótar niður og sættir sig fyrr við nýjar aðstæður.

Látið hundinn sjálfan finna svefnstaðinn sinn.
Þeir eru spes, þessar elskur og hafa vissar hugmyndir um hvar þeir vilja sofa og hvar ekki. Þegar hvolpurinn er búinn að þefa um alla íbúðina í dálitla stund þá er hann orðinn þreyttur og fer að finna hvar hann getur lagst niður. Hann velur örugglega eitthvað horn og þar sem hann dettur niður af þreytu settu dýnuna þangað og leyfðu honum að sofna þar.

Fyrsta nóttin - hafa hundinn við rúmið á dýnu og klappa honum ef hann vaknar.
Þegar komið er að háttatíma og allir að fara sofa þá er fyrsta nóttin svolítið sérstök fyrir hann, því hann vaknar mörgum sinnum á nóttinni og byrjar að sakna mömmu og systkinanna. Saknar hitans.
Þess vegna er mælt með því að hafa dýnuna hans við rúmið þitt.. svo þegar hann vaknar  þá ertu nálægt og getur lætt höndinni niður og klappað honum. Það róar hann strax, bara að vita að hann er ekki einn.
Að hafa hann upp í rúmi er eitthvað sem þú verður að meta hvort þú vilt. En ef þú velur það, þá verður hann líka að fá það þegar hann er orðinn stór og mikill hundur.
En bara svona til að segja það þá er mjög þægilegt að leyfa þeim það ekki. Þá reyna þeir aldrei að hoppa upp. Það er krúttlegt þegar þeir eru litlir en eftir ár eða tvö þegar þessi hundur er ekki svo lítill lengur er það ekki jafn krúttlegt og margir byrja þá að reyna að venja hann af þessu. En það gengur misvel því hundurinn vill alltaf reyna og þá sértaklega þegar þú ert ekki heima. Það er bara ekkert skemmtilegt, þegar hann er t.d. í hárlosi sem er mánuð í senn tvisvar á ári, að sjá varla rúmið fyrir hárum.

Í næsta bloggi skrifa ég um pissu stand á hvolpum og hvernig maður best kennir þeim að gera úti :)

 


Að velja hund

Ok, þið ætlið að fá ykkur hund.. og til hamingju með það.c_documents_and_settings_heidrun_k_johansen_my_documents_my_pictures_hundamyndir_valper

Fyrst vil ég fara í gegnum hvernig best er að velja hundategund.

  1. Kíkið á netið. Finnið hundategund sem þið getið hugsað ykkur að eiga og lesið allt um þessa tegund. Finnið út kosti og galla og metið hvort þetta henti ykkur.
  2. Hvað viljið þið gera með hundinum? Ákveðið það og veljið hundategund út frá því. Reynið að forðast að velja t.d. "veiðihund" ef þið viljið ekki æfa veiði eða annað slíkt. Hundategundirnar eru með sitt eðli og það er ástæða fyrir að þeir heita t.d. veiðihundar eða smalahundar. Þeir þurfa að fá að æfa sig á sínu sviði.
  3. Hversu mikla hreyfingu eruð þið tilbúin að gefa hundinum daglega? Sumar tegundir krefjast mun meiri hreyfingu og leiks en aðrar.
  4. Hárlos. Hársnyrting. Viljið þið dúlla með hundinum, greiða og kemba eða viljið þið ekkert þurfa að sjá um feldinn? Mikilvægt að vita að t.d. puddel þarf að þvo og greiða og blása oft á viku meðan hjá t.d. Border Collie þarf ekkert að sjá um feldinn, bara baða svona annað slagið þegar komin er vond lykt.

Núna eruð þið kannski komin með drauma hundategundina og viljið fara að leita að hvolpi.
Því miður er ennþá mikið um það hér á landi að hundar séu gefins. Gott fyrir okkur sem viljum hvolpa en slæmt fyrir hvolpinn því það gerir að verkum að fleiri fá sér hunda án þess að hugsa sig tvisvar um. En þetta er að koma hér á landi og hreinræktaðir hundar eru orðnir dýrir sem er mjög gott því þá er fólki meira alvara  með að fá sér hund.
Ég ráðlegg öllum sem eiga tík sem er með hvolpa að gefa ekki hvolpana. Ef þú vilt að hvolparnir fái gott heimili settu þá eitthvað verð á hvern hvolp þótt það sé lítið. Það hræðir strax burtu marga sem eiga ekki að fá sér hund.

Að velja hvolp úr flokknum
Þegar þið farið að skoða hvolpana og "velja einn" úr hópnum þá er margt sem þið verðið að hafa í huga.

Hver hundur hefur persónuleika. Það er hægt að skipta þeim í flokka; sterka, miðlungs og veika persónuleika.
Hafið þið einhverntíma heyrt um eða jafnvel gert það sjálf að taka hvolpinn sem kom hlaupandi að ykkur og hugsað að hundurinn valdi ykkur?

Þetta er það versta sem þið gerið.

Því það er svo að sá hvolpur sem "þorir" að koma fyrstur til ókunnugs fólks er sá sem er með sterkasta persónuleikann. Hann er mest dominant af þeim og þorir mest af þeim.
Þessi týpa mun verða erfiðust að ala upp. Týpan mun verða mjög sjálfstæð. Og bara þeir sem vita alveg út í hvað þeir eru að fara geta höndlað þessa týpu þegar hún verður fullorðin.
Ef þið eruð alveg græn í hundum skuluð þið ekki velja fyrsta hvolpinn eða hvolpinn sem virðist mest áberandi og dominant.
Það fer eftir því hvað hvolparnir eru margir en takið eftir röðinni sem þeir koma til ykkar. Ef við segjum að hvolparnir eru 7 alls þá skaltu forðast nr 1 og 2.  nr 3,4,5 eru mest "safe" að velja því þeir eru miðlungs í persónuleika. Sá sem kemur ekki eða síðastur er mest hræddur af þeim og getur orðið alger gunga og skíthræddur við allt og alla.

En auðvitað er þetta engin pottþétt regla sem á við allt og alla. En gott að hafa þetta bak við eyrað svo þið vitið svona nokkurn veginn hvernig hund þið eruð að fá.

Eitt einn sem hægt að hugsa um er þegar þið sitjið þarna og eruð að leika við hvolpana, takið þá upp og takið eftir hvað þeir gera. Ef þeir bíta eða urra þegar þeir eru teknir upp getur það verið vísbending um persónuleika sem getur verið erfiður í framtíðinni. Ef hann fer alveg í klessu þegar fólk nálgast hann er það líka vísbending  um famtíðina.
Takið hvolpinn sem er smá hræddur í byrjun en samt voða forvitinn á ykkur og langar að koma og þefa.

Horfið líka á mömmuna, og fáið að sjá hana og klappa henni. Hún er að ala ykkar hvolp upp og er mikilvægt að hún sé heil í hausnum. Ef pabbinn er ekki á svæðinu spyrjið um hann, um hans geðheilsu.

Svo er líka mikilvægt að sjá  umhverfið sem hvolpurinn er í fyrstu 2 mánuðina hans. Er hann í heimahúsi eða eru þeir innilokaðir í gömlu fjósi? Það sem hann upplifir fyrstu mánuðina er mikilvægt fyrir framtíðina. Ef hann sér engan og ekkert þá eru miklar líkur á að hann verði taugaveiklaður þegar hann er orðinn stór.
En ef hann fær að fara út og upplifa mikið bæði inni og úti og hittir fólk reglulega eru góðar líkur á að hundurinn verður tryggur fjölskylduhundur.

Gangi ykkur vel.

 

 


Mamma, má ég fá hund?

Margir vilja fá sér hund. En miklu fleiri vilja fá sér hvolp!c_documents_and_settings_heidrun_k_johansen_my_documents_my_pictures_hundamyndir_orskar_valp

Það sem ég meina er að hvolpar eru sætir og geðveikt freistandi að fá sér einn sætan yndislegan lítinn hvolp.
Sérstaklega börn, hver hefur ekki heyrt eða sagt " mamma, pabbi.. .mááááá... ég ekki fá einn hvolp ég skal loooooooofa að sjá um hann alveg sjálf.... geeeeeeeerðu það"

Og flestir foreldrar sem vilja eiginlega ekki hund segja nei. En það er því miður alltaf einhverjir sem láta eftir nuðinu og gefa barninu hvolp.

Að fá sér hvolp er eitthvað sem allir fjölskyldumeðlimir verða að vera sammála um. Allir eiga að fara með hann út og hjálpast að við að sinna honum. Annars er möguleikinn stór á að maður sjái auglýsingu eftir 8 mánaði .... hundur gefins... og gjarnan vegna ofmæmis.. (get ekki trúað því að allur þessi fjöldi sé með ofnæmi. )

En af hverju 8mánaða? Af hverju eru svo margar auglýsingar þegar hvolpurinn er að verða hundur? Það er af því að hundurinn er orðin "táningur" og allt sem honum var "ekki" kennt þegar hann var lítill er farið að verða alltof áberandi og óþolandi núna. Svo er líka fyrsta hárlosið á þessum tíma.

Eitt hef ég heyrt alltof oft.. "hann er svo lítill og sætur, verðum að leyfa honum að vera hvolpur". En það sem fólk gerir sér þá ekki grein fyrir, er að þá verður hann líka svona "hvolpur" þegar hann er orðinn meter á hæð og 25kg.
Það sem hundurinn fær að gera þegar hann er hvolpur, man hann vel sem fullorðinn og mun gera það þá líka.

Ég vil líka taka fram að börn vita ekki hversu mikillar ábyrgðar hundurinn krefst. Það er ekki hægt að ætlast til þess af barni að sjá um hundinn. Foreldrar verða að taka ábyrgðina svo má barnið hjálpa til og hafa vissar skyldur gagnvart hundinum td. að alltaf verða að labba með hundinn þegar komið er heim úr skóla.

Ég ætla að fara yfir hvers hundar krefjast svona dags daglega.. Hvaða þarfir hafa hundar?

  • Hundar þurfa hreyfingu á hverjum degi. Og minnst 3 göngutúra á dag. Og þá allavega einn af þeim sem hann fær að hlaupa og leika og þefa.
  • Hundar þurfa að hitta aðra hunda. Sem hvolpur er mjög mikilvægt upp á framtíðina að gera að venjast því að leika við aðra hunda (og þá ekki bara nágrannahundinn heldur fullt af ókunnugum hundum). Fer yfir hundatungumálið seinna sem útskýrir af hverju.
  • Hundar þurfa að fá að nota heilann, ekki bara göngutúra. Að leggja slóð og leyfa hundinum að þefa sig áfram eftir pulsum eða uppáhalds leikfangi gerir rosalegan mikið. Hundurinn verður rólegri og minni líkur á að honum leiðist þegar hann er einn heima.
  • Maturinn er mjög mikilvægur og er þar stór kostnaður. Mæli bara með þurrfóðri fyrir hunda og þá bara þannig fóðri sem fæst í dýrabúðum. Pedigree og annað sem fæst í matarbúðum mæli ég ekki með. Ég persónulega hef góða reynslu af Eukanuba og Hills.
  • Athygli, hrós og samvera. Hundar eru flokkdýr og þegar við erum að vinna eru þeir heima og bíða. Þegar við komun heim þurfa þeir einmitt þetta þrennt.

Ef hundurinn fær allt þetta daglega, þá eru miklu minni líkur á að hann fari út í það að skemma hluti, naga eitthvað sem má ekki eða byrja gelta á það sem er að gerast úti.

 

Svo þá er bara spurningin... eruð þið tilbúin að gefa hundinum allt þetta á hverjum degi?

Ef svarið er já, þá mæli ég með að hoppa út í þetta því að hafa hund á heimilinu er rosalega gefandi fyrir börnin og foreldrana líka.

 


Fyrsta bloggið um hunda...?

Ég vil byrja á því að kynna mig aðeins.

Ég er 28 ára gömul og uppalin í sveit. Þó svo við ættum hunda þegar ég var lítil í sveitinni þá get ég ekki sagt að ég hafi kynnst hundum fyrr en þegar ég eignaðist minn fyrsta hvolp, border collie hundinn Tommy. Fór með hann á námskeið og þá vaknaði þessi svakalegi áhugi á hundum og hlýðniæfingum.
Ég keypti bækur og las og las og las....

Svo seinna þegar ég flutti til Oslo fór ég að vinna á hundaskóla. Ég byrjaði þar sem aðstoðarhundakennari og lærði alveg rosalega mikið um hvernig á að fara að því að tala við hunda svo þeir skilji.
Þar fékk ég mér aftur hund og hét hún Cille, líka Border Collie enda alveg rosalega gáfuð og flott hundategund.

Tilgangur minn með þessu bloggi er að skrifa um það sem ég kann. Frá fyrsta degi þegar þú ferð að velja þér hvolp til fullorðins hund.

Ég vil taka fram að ég hef ekki lært það sem ég skrifa hér í skóla, heldur bara lesið í bókum og lært þar sem ég var að vinna. Einnig er mikið af því sem ég mun skrifa hér það sem ég hef uppgötvað sjálf. Svo ef þú lest eitthvað sem þú ert ekki sammála máttu alveg koma með athugasemd.

Ég er algjörlega á móti að refsa hundum þegar þeir gera eitthvað "rangt" ég trúi ekki á að "taka í hundinn" til að siða hann til.
Ég tel að það sé hægt að kenna hundum góða hlýðni með því einu að nota athygli, hrós og nammi.
Þegar hundurinn gerir eitthvað sem við viljum ekki að hann geri aftur, þá er einfaldlega tekið burt þetta þrennt (fyrir hundinn eru skammir athygli).

 

Ég mun útskýra þetta nánar í næstu bloggfærslum.

 


Hundaþjálfun

Heiðrún Klara Johansen

Sjá einnig www.heidrunklara.is 

Frá hvolpa stælum til fullorðins vandamál. Flest alt er hægt að laga með því að skilja hundinn betur. Þið með hvolpa, fyrstu færslurnar eru mikið um hvolpauppeldi. Svo endilega lesið allar færslurnar til þess að fá sem bestan skilning á því hvernig mínar aðferðir virka.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband