Fimmtudagur, 16. ágúst 2007
Venja hund á búr (spurning frá lesanda)
Sigurjón Jónsson
Hæ, mér fannst þetta svo góð spurning hjá þér og ég vissi að mitt svar yrði ekki stutt svo ég ákvað að setja þetta í sér færslu.
Það sem þú gerir er klassískt, og þá lika klassískt rangt því miður. Ég leyfði mér að lesa á milli línanna lika og hugsaði mér að þegar þú fórst út varstu að horfa á hvolpinn í búrinu, læðast út, kannski kíkja einu sinni i lokin og segja honum að vera þarna kyrrum.
Allt þetta og sem þú líka skrifaðir gerir hundinn bara stressaðan og þá líður honum illa.
Skal reyna útskýra hvernig hundar hugsa.
Hundurinn tekur eftir öllu sem við gerum. Af því að hann getur ekki spurt okkur hvað er í gangi, er hann stanslaust að lesa hegðunina okkar.
Á venjulegum degi hefur þú þína rútínu, hundurinn er þá rólegur því hann þekkir þetta og veit að allt er í góðu. Hann finnur að þú ert rólegur og þá er hann rólegur.
Svo kemur að því að þú ætlar að kenna honum eitthvað nýtt. Kemur þarna með búr og platar hann inn í það og lokar. Hundurinn fer þá að pæla hvað er í gangi, og alltaf þegar eitthvað nýtt er að gerast þá fer hann ekki strax að gelta og panikka, hann lítur alltaf fyrst á þína hegðun til að vita hvernig hann á að bregðast við þessu.
Og það er hér sem flestir klikka, við byrjum að hegða okkur á annan hátt. Þetta er réttur hugsunarháttur fyrir mannfólkið að sýna þannig að allt sé i lagi, en því miður þá misskilja hundar þetta, aðallega að því þeir skilja ekki tungumálið okkar.
Svo þegar þú lokar hurðinni og ert í svona "núna er ég að kenna hundinum" módus, þá ertu að haga þér öðruvísi en venjulega. Hann finnur það alveg, hann þekkir þetta ekki og verður stressaður.
Það sem þarf að gera er að venja hann á búr í tvennu lagi.
Venja hann á búr
Venja hann að vera einan heima
Það þarf ekkert að gera þetta bæði í einu og er fínt að hafa þetta aðskilið í byrjun. Flestir vilja líka að hundurinn eigi að geta verið einn heima þótt hann sé ekki í búrinu, að hann eigi bara að leggjast niður og sofa í stað þess að fara að skemma allt.
Þannig að:
Venja hund á búr:
Hafið búrið opið og bara í stofunni þar sem þið eruð hvort eð er að slappa af og horfa á sjónvarpið. Setjið hvolpinn inn og leyfið honum að þefa og kanna staðinn, þurfið ekkert að loka hurðinni fyrst um sinn, ekki í fyrsta skiptið hann er þarna inni. Setjið þægilegt teppi þangað inn og eitthvað uppáhalds leikfang og bein að naga.
Þegar hann er búinn að kanna staðinn og er farinn að labba út og inn kannski, eða bara hættur að pæla í búrinu, þá setjið þið hann inn og lokið.
Og svo kemur þetta mikilvæga. Núna verðið þið að hegða ykkur alveg eina og venjulega.
Loka hurðinni, ekki horfa á hvolpinn. Setjist bara aftur í sófann og haldið áfram að horfa á sjónvarpið eins og hann er vanur að sjá ykkur á kvöldin.
Núna byrjar hvolpurinn að horfa á ykkur og er að spá hvað er í gangi, hann sér að þið eruð róleg og eruð ekkert að pæla í honum. Það er öryggi hjá honum hann kannast við ykkar hegðun.
En fyrst um sinn er hann örugglega samt ósáttur við að komast ekki út og mun kannski væla smá, eða byrja að gelta, bíta í búrið og krafsa í teppið.
Hvað sem hann gerir, hunsið hann alveg. EKKI horfa á hann. Ef börnin eru ung er kannski best að gera þetta þegar þau eru farin að sofa.
Það er mjög misjafnt hvað hundar gera, sumir eru alveg crasy og reyna allt til að fara út. Málið er að þeir eru bara að prófa að gera allt sem þeim dettur í hug til að ná athygli ykkar.
Þeir hugsa núna... "Hvað á ég að gera til að þau sjái mig hérna?" Og hann veit að hann fær venjulega athygli þegar hann geltir eða bítur í eitthvað eða vælir svo þessvegna mun hann prufa þetta líka núna.
En svo eru sumir hundar sem væla bara smá og gefast svo bara upp og bíða.
Þegar hundurinn gefst upp og þið heyrið EKKERT frá honum í kannski hálfa mínútu, þá stendur eitt ykkar upp án þess að segja neitt eða horfa mikið á hann. Semsagt gefa honum eins litla athygli og hægt er. Standa bara upp og opna hurðina og setjast aftur og halda áfram að horfa á sjónvarpið. Halda áfram að hunsa hann.
Eftir eina mínútu eða tvær, þá megiði klappa honum eins og þið viljið og eruð vön.
Ef hundurinn er alveg crasy og stoppar bara ekki að gelta og panikka, þá verðið þið að bíða eftir pásunni hans, semsagt þegar hann tekur smá pásu í geltinu til að ná andanum, og fara að opna. Bara passa sig að standaekki upp fyrr en hann þegir. Þótt það sé bara þessi eina sekúnda sem hann heldur kjafti þá verður þú að ná henni. Og ef þú klikkar og hann er farinn að gelta verðurðu bara að bíða eftir næstu pásu hjá honum.
Ég skal útskýra afhverju þetta er svona mikilvægt.
Hundurinn er að hugsa, hvað er það sem tekst að fá athygli frá þeim? Og ef þú stendur upp á því augnabliki sem hann þegir, þá mun hann fatta eftir nokkrar svona æfingar að "já hey, ég þarf að þegja og vera rólegur til að geta komist út", En ef þú stendur upp og opnar þegar hann er að einhverju þá ertu að segja honum að þetta þarftu að gera til að komast út. Og hann mun gera þetta næst líka.
Þessvegna á aldrei að opna hurðina nema hann sé rólegur og þögull.
Ef hann er ofsa góður og er bara rólegur að bíða alveg frá byrjun, þá bara mjög gott og þið opnið búrið eftir eina minútu. Ekki hafa hana lokaða lengi í byrjun.
Ef hann er ALVEG CRAZY og nágrannarnir eru farnir að kvarta og hann bara stoppar ekki eina sekúndu einu sinni.. gerið þá eitthvað skrítið hljóð..sem hann fattar ekki að er frá ykkur.. þannig að hann mun stoppa til að hlusta.. þá notiði þessa sekúndu til að sleppa honum út og reynið svo aftur sama kvöld.
Hann mun ekki vera eins crazy því lengur sem líður á æfinguna því hann man eftir því að hann komst út síðast.
Lykilatriðið: Þið ofsalega róleg og hagið ykkur venjulega. Og ekki opna hurðina fyrr en hann er rólegur. Ekki horfa á hann eða veita honum athygli. Ekki heldur knúsa og hrósa honum þegar hann kemur út úr búrinu.
Þetta er eitthvað sem á að vera normal í hans lifi og ef það er hrósað hugsar hann að þetta var eitthvað merkilegt og verður stressaðri með það næst.
Gerið þessa æfingu tvisvar til þrisvar fyrsta kvöldið. Venjulega bara mínúta eða tvær í einu í búrinu þangað til að hann tekur pásu og er þögull. Ekki krefast að hann eigi að liggja til að komast út, má alveg standa, bara hann sé rólegur og segi ekki neitt.
Það þarf semsagt ekki að fara út úr herberginu fyrstu skiptin. Það kemur síðar og er sama prinsipp og að fara út úr húsi sem ég ætla útskýra hér fyrir neðan.
Þegar allt gengur vel og hann virðist bara rólegur í búrinu getið þið farið að hafa hann inni í því með lokaða hurð yfir nóttina.
En hafði búrið þar sem eru allavega tveir veggir bakvið svo hann þurfi ekki að vakta allar hliðarnar. Þeir vilja sofa það sem þeir hafa svona hol.. en samt yfirlit yfir það helsta í íbúðinni. Búrið má líka alveg vera inni í herbergi hjá ykkur en það er alls ekki nauðsynlegt og því ráðið þið alfarið.
Venja hund að vera einn heima.
Mjög mikið sama prinsipp og fyrir ofan hvað varðar að þið hegðið ykkur venjulega. Hérna þarf ekki að nota búrið fyrst um sinn.
Verið bara að í íbúðinni, verið að taka til eða eitthvað og hundurinn er alltaf að elta ykkur. Svo allt i í einu labbið bara út án fyrirfara og lokið á eftir ykkur án þess að horfa á hundinn. Lokið hurðinni. En áður en hann er farinn að átta sig á þessu og ákveður að gelta þá eruð þið komin inn aftur.
Sem sagt bara inn og út. T.d. eins og þú fórst út með ruslið og inn aftur. Eldsnöggt. Og hérna aftur ekki hrósa eða klappa eða horfa á hundinn.. þú ert bara upptekinn við tiltekt.
Gerðu þetta aftur mörgum sinnum. Eldsnögg út og inn svo hann nái aldrei að gelta. Eftir smá tima venst hann því að þú hverfur og lokar en þú kemur alltaf aftur svo hann bíður bara.
Þegar þú ert búin að gera þetta nokkrum sinnum þá ferð þú að vera lengur í burtu.. kannki labbar út á götu og til baka.
Ekki standa við hurðina og bíða. Hundurinn heyrir alveg að þú ert þarna og fer að pæla hvað málið sé. Hann heyrir að þú labbar í burtu og að þú ert að koma aftur svo farðu bara alltaf lengra og lengra. Gerðu þetta oft á dag svo þetta verði venjuleg hegðun í ykkar lífi.
Svo er bara að meta hvenær þú ferð í að vera 10 mín í burtu. Skreppa í sjoppuna og skilja hann eftir einan heima. Eftir svona viku með 2, 4, 5 6 mín þá geturðu farið yfir i 10 mín - korter - hálftíma.. og svo koll af kolli.
Og aldrei hrósa honum þegar þú kemur heim. Eftir smá tíma þegar þú ert búin að vera burtu í nokkra klukkutíma eða jafnvel 8 tíma vinnudag máttu alveg heilsa honum eins og þú vilt en reyna að hafa þetta ekki OF MIKINN fagnað. Ekki eins og þið séuð búnir að vera burtu frá hvor öðrum í 10 ár.
Þú ræður alveg hvernig þinn hundur verður. Og þegar hann er stór er rosalega óþolandi að hafa hund sem hoppar og er rosalega æstur í hvert skipti sem þú kemur heim.
Hann lærir af þér og ef þú fagnar honum á fullu þegar þú kemur heim þá mun hann alltaf gera það sama líka þegar hann er orðinn stór og sterkur.. og byrjar þá líka að hoppa uppá og fagna ókunnugum sem ekki alltaf vinsælt.
Þannig að það er fínt að hafa stutta heilsa-klappa rútínu en alls ekki leyfa honum að byrja að hoppa og vera með læti. Ef hann byrjar á því þá hættirðu strax að heilsa honum og ferð burt.
Svo er það að hafa hann í búrinu einan heima. Þegar hann er vanur að vera í búrinu meðan þið eruð heima við þá gerið þið alveg eins og þegar á að venja hann að vera einan heima...án búrs. Bara labba út og ekki líta tilbaka.
Verið stutt í burtu í fyrsta skiptið.. en núna er hann vanur þessu öllu og getur verið lengi einn heima í búrinu án þess að gelta.
Hann bara sefur og dreymir fallega drauma um að þið komið heim með þurrkað nautatyppi handa honum að naga... nammmiii...
Bloggar | Breytt 20.9.2007 kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 9. ágúst 2007
Könnun..
Langar að spyrja þig, lesanda nokkurra spurninga, bara til að vita svona meira hvað fólk gerir.
- Áttu hund?
Ef já þá máttu halda áfram að svara. - Hvaða tegund og aldur er á hundinum?
- Hvað ferðu oft með hann út að labba á dag?
- Hvað eruð þið lengi úti að labba í hvert skipti?
- Hvað fær hundurinn oft á viku að hlaupa alveg frítt og virkilega taka á sprett?
- Hvað fær hundurinn að borða?
- Hversu oft fær hundurinn að hitta og leika við ókunnuga hunda?
- Tekur þú upp skítinn?
- Ert þú ánægð/ur með hundinn þinn? Eða er hann með hegðunarvandamál, ef já, hvað?
- Ert þú dugleg/ur að kenna hundinum hlýðni og siða hann til?
Svo í lokin, hvað viltu að ég skrifi um? Eitthvað sem þig langar að vita?
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Miðvikudagur, 11. júlí 2007
Hvernig á fá hvolpinn til að toga ekki
Mig langar að ræða hvernig hundar hugsa aðeins betur.
Ég var að keyra hér um daginn og sé ég mann labba með ca 4 mánaða gamlan Golden Retreiver hvolp. Hvolpurinn er út um allt og þefar og horfir og togar í bandið til hægri og vinstri og fellir næstum manninn á tímabili við að hlaupa beint fyrir framan hann.
Maðurinn gerir það klassíska. Kippir í bandið í von um að hundurinn fatti að labba rólega.
En auðvitað fattar hundurinn það ekkert.
Svo halda þeir áfram að rölta og hvolpurinn á fullu með að kanna heiminn. En þá er komið nóg hjá manninum og hann stoppar og beigir sig niður. Bendir með vísifingri að hvolpinum, og ég get bara ímyndað mér hvað hann sagði. "Þetta er síðasti sjéns.. hagaðu þér nú!"
Hvolpurinn horfir bara yfir götuna á eitthvað spennandi.
Haldið þið að maðurinn hafi kennt hundinum eitthvað með þessu? Nei, alveg rétt. Þetta virkar ekki. Hundar tala ekki mannamál.
Þess vegna verðum við að tala hundamál.
Og hvernig kenna hundar hvor öðrum? Þeir kenna með því að gera. Ef hvolpurinn er með læti þá lætur mamman hann vita á hátt sem hann skilur.
Þetta þurfum við líka að gera.
En ég vil nú ekki að þið farið að urra á hundinn eða vara hann við með að bíta í hann.
Það er hægt að kenna þeim svo þeir skilji á góðan hátt, án þess að nota vald eða hörð orð. Já, og vísifingurinn.
Við notum það sem þeir vilja ekki sem straff... Og til að finna hvað það er, verðum við að horfa á hvolpinn og gá hvað er það sem hann vill akkúrat núna.
Í þessi tilfelli langaði hann að hlaupa áfram.
Og til þess að fá hann til að labba rólega er hægt að straffa með að láta hann þurfa stoppa í hvert skipti sem hann tjúnast allur upp og fer á hlaup.
Svo að stoppa þá er neikvætt fyrir hundinn.
Þegar hann er rólegur er farið aftur af stað. En um LEIÐ og hann fer á ið aftur, þá er stoppað og beðið þangað til hann róast.
Eftir einhver skipti fattar hundurinn að um leið og hann tjúllast þá gerist ekki neitt, svo hann fer að passa sig betur til að hann komist nú eitthvað áfram.
Þetta virkar ef þið gerið það UM LEIÐ og hann byrjar að toga í bandið. Ekki bíða í 1 - 2 metra, þá á hann erfiðara með að fatta hvað málið er.
Svo er líka hægt að stoppa og bakka með hundinn og um leið og hann er búinn að snúa við og gefast upp við að fara áfram og labbar á eftir þér, þá er haldið áfram.
Þá hugsa þeir að "ef ég toga þá kemst ég bara aftur á bak" og þá fara þeir að hætta að nenna að toga.
Best er að hafa langan taum. Og alltaf leyfa honum að hafa hann allan svo hann læri hvaða svæði hann hefur til ráðstöfunnar.
Það er erfitt fyrir hunda þegar alltaf er verið að breyta hvað hann má fara langt. Best að hafa bara eina lengd.
Endilega koma svo með spurningar
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Mánudagur, 18. júní 2007
Að rekja slóð
Það er mjög mikilvægt að láta hunda fá næga hreyfingu á hverjum degi. En svo er líka mikilvægt að gefa þeim eitthvað að hugsa um, æfa heilann lika.
Þið getið líka bara ímyndað ykkur ef ykkar líf væri bara að fá að fara út að labba nokkrum sinnum á dag og ekkert annað. Ykkur myndi fara að leiðast mjög fljótt og byrja að ganga á veggina heima.
Og þetta gera hundarnir líka, þeir fara sjálfir að finna eitthvað að gera og ef þeir fá að ráða alveg sjálfir þá er það oft eitthvað sem er ekki sniðugt að þeir geri, t.d. naga borðfót, borða fjarstýringuna og svo framvegis.
Ef maður æfir heilann aðeins þá er hundurinn þreyttur þegar er hvíldartími og sefur bara. Nennir ekkert að gera af sér.
Svo hvað er hægt að gera til að æfa þá?
Það er t.d. að rekja slóð. Hundar eru með nef sem þeim finnst ofsalega gaman að þefa gegnum og leita að hlutum gegnum lykt. Þetta notum við sem heilaæfingu. Þeir þurfa að einbeita sér rosalega þegar þeir eru að þefa upp slóð svo þeir verða mjög hamingjusamlega þreyttir restina af deginum og jafnvel daginn eftir líka ef þeir voru að lengi.
Ég mæli með því að fara á námskeið í þessu til að læra meira, því það er erfitt fyrir mig að útskýra hvernig æfingarnar eru.
En eina grunnæfingu get ég reynt að útskýra:
Að láta hundinn þefa upp fótsporin þín.
Veljið stað sem ekki er mikil umgangur t.d. grasblett sem ekki búið er að labba mikið á síðustu dagana. Kannski er bara best að fara út í móa eða finna tún einhversstaðar.
Bindið hundinn við eitthvað.
Takið fram pylsu sem þið hafið skorið í litla bita heima og sett í poka.
Finnið reit sem þið sjálf munuð finna aftur, þar á slóðin að byrja.
Krafsið vel þar með skónum, til að virkilega koma lyktinni ykkar í grasið. Setjið svo nokkra pylsubita í sporið.
Labbið barnaskref í beina línu og setjið einn pylsubita í hvert skref.
Í byrjun er nóg að hafa slóðina svona 10, 20 metra á lengd og alveg beina.
Þegar þið eruð komin með nógu langa slóð, þá gerið þið endareit. Þar krafsið þið líka í jörðina vel og setjið hrúgu af pylsubitum í skrefið.
Svo hoppið þið eins langt og þið getið beint áfram frá endareit, þannig að hundurinn á ekki að finna slóðina áfram.
Labbið svo beint áfram í 5 - 10 metra og farið svo til hægri eða vinstri til baka til hundsins. Passið að vera langt frá slóðinni til baka þannig að þið takið stóran sveig til að rugla ekki hundinn.
Svo er bara að ná í hundinn, sýna honum byrjunarreitinn og benda á pylsurnar. Þegar hann er búin með þær gá hvort hann hefur ekki komist á slóðina og labbar áfram, ef ekki sýnið þá næsta og gá hvort hann nær þessu þá og svo framvegis.
Reglan er að ef hundurinn labbar framhjá einum pylsubita í slóðinni má hann ekki fara til baka og ná í hana, hann á alltaf að labba áfram. Og þið eigið alltaf að vera fyrir aftan. Best er að hafa hann í bandi í þessum æfingum.
En passið að segja ekki NEI, bara benda honum á næstu pylsu í staðinn eða fá hann áfram.
Svo þegar hann er komin á lokareitinn þá er HRÓS DAUÐANS og klapp og fullkomin hamingja og þetta var svo gaman og já virkilega sýna honum að þið séuð ánægð með hann. Fara kannski strax að leika við hann þegar hann er búinn með pylsurnar.
Sumar hundategundir eru betri í þessu en aðrar, t.d. Border Collie, Labrador og Schäffer eru duglegir að reka slóð. Og svo er kannski Jack Russel og Tjúinn lengur að fatta. En allir hundar hafa þetta náttúrulega í sér og endilega prófið
Þið munuð eftir nokkur skipti taka eftir hvað honum finnst þetta geðveikt gaman.
T.d. æfði ég þetta með Labrador tík sem vill bara éta allt sem hún sér.. og henni fannst þetta svo gaman að eftir fyrsta skiptið gleymdi hún öllum pylsunum og þaut áfram.
Ég vil benda á að í þessari æfingu má hundurinn toga í bandið. Þið eigið bara að fylgja, ef þið eruð með stóran hund sem finnst þetta mjög gaman og byrjar fljótt að hlaupa er sniðugt að kaupa langa línu svona 15 - 20 metra og hanska.... og bara hlaupa svo á eftir.
Þegar hundurinn fer léttilega með beina línu má fara að gera smá sveig á slóðina, en forðist að taka 90 gráðu beygju því það er erfitt fyrir hundinn svona í byrjun. Og ef þetta er of erfitt í byrjum gefst hann upp og getur fengið lélegt sjálfstraust í þessu. Og það viljum við sko ekki.
Eftir nokkrar æfingar þegar hundurinn er farin að fatta að hann á að þefa, þá byrjið þið að setja pylsu í kannski annað hvert spor og svo að fara taka stærri spor eins og maður labbar venjulega.
Svo finnið þið bara hvað hann er góður í þessu, ef hann er virkilega að fíla það að rekja slóð mun hann lítið pæla í pylsunum.
Svo er lika hægt að nota uppáhalds leikfangið.. búa til slóð af því.
Það er margt hægt og þess vegna fínt að fara á námskeið til að læra meira um svona æfingar.
Svo allir út að reyna þetta og komið svo inn og kommentið um hvernig þetta gekk og komið með spurningar ef það er eitthvað.
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 15. júní 2007
Mikilvægt að klippa klær og bursta tennur reglulega.
Ef þú hefur ekki efni á að fara til dýralæknis og láta svæfa eða róa hundinn til að klippa klærnar reglulega þá er eitt sem þú verður að gera frá því hann er lítill hvolpur.
Það þarf ekki að klippa klærnar á hvolpum... ekki fyrr en svona 6 til 8 mánaða gömlum. En þá er of seint að venja þá við.
Hundar eru asnalega mikið hræddir um lappirnar sínar. Til þess að mega klippa klærnar í framtíðinni verðurðu að byrja á því þegar hann er lítill.
Svo fáðu þér hundaklippur "strax í dag" ( hehe ala vörutorgs gaurinn óþolandi).
Byrjaðu svo að "klippa klær" það er ekkert að klippa en takið smá af og svona þykist klippa þegar þið eruð að kúra. Þarf ekkert að taka allar í einu en bara smá í einu. Þá venst hvolpurinn að þið séuð að atast í loppunum og verður ekkert að stressa sig yfir þessu.
Svo er mjög gott að gera þetta oft þá minnka þær smám saman, sko "bleika" svæðið sem ekki hægt er að klippa í. Ef nöglin er hvít þá sést vel þetta bleika svæði og ALLS EKKI KLIPPA Í ÞAÐ. Ef þú gerir það er það mjög vont og mun hvolpurinn aldrei treysta þér aftur með neglurnar, svo farðu varlega.
Þetta bleika svæði dregur sig til baka eftir því sem þú klippir oftar. En ef þú klippir sjaldan þá vex það til að verða lengra og lengra svo það verður ekkert hægt að klippa... en samt klærnar ofsalega langar.
Klærnar fara ekki vel með parketið svo það er mjög gott að hafa bara klippurnar á sófaborðinu og klippa eina eða tvær neglur þegar verið er að kúra
Meira um hvernig á að klippa klær finnur þú hér
Ég var einu sinni með hvolp og gerði þetta ekki. Ég hafði ekki efni á klippum...(það var afsökunina mín).
Svo þegar hvolpurinn var orðinn 8 mánaða þurfti ég að fara að klippa, fékk mér klippur og allt og fór að reyna. En það gekk ekki mjög vel, henni fannst mjög asnalegt að hafa mig fiktandi í löppunum sem ég hafði aldrei gert áður og dró þær alltaf til sín. Svo ég fór að múta henni með nammi og gat þá klippt smá. En svo klippti ég aðeins í það bleika eða eitthvað svo hún vældi smá og kippti til sín löppinni. Eftir það mátti ég aldrei klippa. Þetta var orðið svaka vandamál.
Hefði ég bara gert þetta frá byrjun þá hefði þetta verið ekkert mál.
Fikta í löppunum og klónum þegar er verið að kúra.. getur nuddað þær svo hvolpinum finnist þetta bara gott, þá kemur eitthvað jákvætt úr þessu.
Þetta gildir líka um eyrun og munninn. Verið oft að fikta í eyrunum og munninum svo hann venjist þessu líka. Dýralækninum mun líka vel við það.
Ef þú ætlar að sýna hundinn er venjan að dómarinn kíki á tennurnar, þá á hundurinn að leyfa ókunnugum að koma við þær.
Bursta tennurnar? Jú jú... núna er það komið í ljós að maður á að bursta tennurnar og er sagt svona 3 - 4 sinnum í viku. Þá virkar fínt svona barnatannbursti og til er hundatannkrem í dýrabúðum en það er ekki nauðsynlegt, það er ekki sannað að hundatannkrem hafi jákvæð áhrif en það er ekki búið að afsanna það heldur, svo fylgist bara með hvað þeir segja um þetta mál i framtíðinni. Að bursta er mikilvægt en það má ekki nota okkar tannkrem því hundarnir gleypa tannkremið og það er ekki hollt fyrir þá.
Þið sem eruð með ketti eigið líka að bursta í þeim tennurnar reglulega.
Meira um að bursta tennur finnur þú hér
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 17:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. júní 2007
Að setja reglur.
Það er mikilvægt að setja reglur strax þegar hvolpur kemur í hús. Allir fjölskyldumeðlimir verða að setjast niður saman og ræða hvað má og hvað má ekki. Svo verða ALLIR að fylgja því.
Þetta með að "leyfa honum nú að vera aðeins hvolpur" Er bara BULL OG VITLEYSA!!!!
Það sem hvolpurinn má fyrstu mánuðina vill hann og mun gera restina af lífinu. Svo hugsið ykkur tvisvar um ef þið leyfið honum að koma upp í sófa, þá má hann það líka þegar hann er orðin 30 kg og hundskítugur og hvað þá þegar hann fer úr hárum tvisvar á ári í rúman mánuð í senn.
Svo er margt annað sem hægt er að setja reglur um og á það við daglega hlýðni og fá þá til að róa sig niður í sumum rútínum.
T.d. að fara út. Það er rosalega góð venja að láta hundinn setjast áður en dyrnar eru opnaðar og segja svo gjörðu svo vel og labba út. Ef þetta er alltaf gert lærir hann fljótt að bíða eftir þessu orði áður en hann stormar út. Þegar hann prófar að hlaupa út án þess að það sé í boði, þá reynið ná í skottið á honum og henda honum aftur inn. Ef hann náði að fara út, þá bara labba að honum úti og fara með hann inn, loka dyrunum, segja honum að setjast, opna og bíða ..... bíða.... bíða.. og svo "gjörsvovel" og þið labbið saman út í lífið. Það þýðir sem sagt ekki að skamma hann ef hann náði að fara út. Aldrei skamma nema í augnablikinu sem hann gerir það sem má ekki, annars veit hann ekki af hverju þú varst að skamma. Hann getur hafa verið að þefa þarna úti og þú kemur stormandi og hundskammar hann... hann skilur ekkert í af hverju hann mátti ekki þefa.
Sama á við bíla. ALDREI að leyfa hundi að hlaupa út sjálfum. Þeað er líftrygging hundsins og annarra að hann bíði þar til þú gefur merki um að hann megi hoppa niður. Gjörsvovel er fínt að nota hér líka.
Ég skrifa GJÖRSVOVEL því það er þannig sem hundarnir heyra þetta. Alltaf segja eins og hafa þetta stutt og lagott.
Þegar þið eruð að borða kvöldmat saman er góður siður að hundurinn betli ekki. Sætt þegar hann er hvolpur, en eftir 2 ár er þetta ekki sætt lengur heldur bara pirrandi.
Því verða allir að vera sammála um að gefa hundinum aldrei neitt annað en hundamat (og þá gott þurrfóður frá dýrabúð. Eukanuba, Hills og Royal Canin er gott fóður. Eukanuba best að mínu mati). Þegar þið sitjið og borðið er fínt að reka hundinn í burtu. Segja honum að fara að leggja sig eða bara fara og ýta honum í burtu ef hann situr þarna og er að horfa á ykkur. Ef hann aldrei fær neitt þá betlar hann ekki. Ef hann hefur fengið stundum mun hann alltaf reyna.
Ef þið eigið það til að borða við sjónvarpið og hafa mat á sófaborðinu er líka góður siður að leyfa hundinum ekki að koma með trýnið yfir borðið og ekki setja hausinn á borðið. Og passið matinn á borðinu og segið nei um leið og hann er að hugsa um hvort hann eigi að reyna að fá sér bita.
Það má alveg loka af hluta af húsinu fyrir hundinum. T.d. banna honum að fara inn i viss herbergi. Bara segja nei við dyrnar ef hann ætlar inn. Það er mjög þægilegt upp á framtíðina að gera og þrif að hafa ekki hundahár út um alla íbúð.
Rúmið ætti að vera alveg bannaður staður, ef þú ert með lítinn hund er það kannski ekkert slæmt. En hugsið bara til framtíðar þegar hann er lítill er sætt að sofa með hann hjá sér, en hann stækkar. Hundar lifa lengi og þeir fara úr hárum Ég skal segja ykkur svona í algjörum trúnaði að stunda kynlíf í rúmi sem hundur sefur venjulega í og er í hárlosi þó svo það sé nýbúið að skipta á rúminu er ekki nice..
Svo eru hundar mjög mikið að pæla í status í flokknum sínum og fái hann að sofa upp í hjá pabba eða mömmu eða bæði heldur hann að hann sé hátt settur í fjölskyldunni og ef börnin sofa í öðru herbergi getur hann talið sig hærri en þau og það getur verið hættulegt ef honum dettur einhverntíma í hug að fara að siða þau til.
Góð leið til að segja honum hvar hann er staddur, sem sagt lægstur, er að þegar "húsbóndinn" kemur heim úr vinnu þá á hann að heilsa upp á konuna og börnin fyrst... og síðast hundinn. Aldrei hundinn fyrst.
Góður siður er líka að leyfa hundinum ALDREI að hoppa upp á mann, eða hvað þá ókunnuga, venja hann á að setjast og klappa honum svo. Segja honum að setjast þegar ókunnugir vilja heilsa upp á hann og láta fólk bíða með klappið þar til hann er sestur og rólegur.
En setjið ykkar reglur, það er fínt að hafa reglur, hundurinn skilur þá meira hvað má og má ekki og verður sáttur. Ef hann hefur strax reglur að lifa eftir þá verður hann ekki eins æstur karakter.
Það sem á að gera ef hann brýtur settar reglur er að segja nei um leið og hann er að gera ranga hlutinn. Og ef hann hættir ekki strax þá fara til hans og t.d. ýta honum af sófanum ef hann lagðist upp í eða færa hann frá atvikinu.
Ef þið segið NEI við hundinn þá verður hann að hlýða og ef hann hættir ekki þá á strax að leiðrétta hann.
Endurtek að það þýðir ekkert að skamma eftir á.
Það er fjárfesting fyrstu mánuðina eða fyrsta árið að fylgjast vel með honum og ala hann vel. Annars verður þú fljótur að setja út auglýsingu "hundur gefins" við 8 mánaða aldurinn þegar gelgjan tekur við.
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Þegar hundar hittast....
Það er mjög mikilvægt að hvolpar og líka fullorðnir hundar fái að hitta aðra hunda, og þá marga hunda, fái að heilsa, þefa og leika sér saman.
Ég tók eftir því eftir að ég flutti heim frá Noregi að Íslendingar eru ekkert allt of duglegir að leyfa sínum hundum að hitta reglulega aðra hunda.
Hef ég líka heyrt sem ástæðu að hundurinn fái ekki að hitta aðra hunda sé t.d. "hann lendir bara í slagsmálum", "hann geltir bara á alla", "svo hrædd um að einhver komi og bíti sæta litla voffann minn".
Það er rétt, það eru rosalega margir hundar hér á landi sem kunna ekki að vera hundar.
Þegar hvolpur fæðist, kann hann ekki þetta "hundatungumál". Hann þarf að læra það frá öðrum hundum.
Alveg eins og við, við þurfum að læra að tala frá öðrum.
Mest af þessu fær hann frá mömmu sinni, hún er alveg svakalega upptekin þessa tvo mánuði sem þeir fá að vera hjá henni við að siða þá til og kenna þeim hvernig þeir eiga að haga sér.
Þegar við tökum við hvolpinum á hann ennþá margt ólært. Hann er t.d. ekki búinn að læra að heilsa kurteislega upp á aðra hunda og hann er ekki búin að læra að tjá sig svo ókunnugir hundar fatti að hann sé góður hundur.
Þetta er ekkert mál að kenna þeim. Eina sem þið þurfið að gera er að fara með hann á staði þar sem eru margir hundar, t.d. á hundasvæði, sleppa honum lausum og leyfa honum að leika við hina hundana.
Ef þú gerir þetta reglulega frá því hann er ungur hvolpur færðu hund sem mun ekki lenda í slagsmálum upp úr þurru.
Það sem hundar gera til að láta hinn hundinn vita sem er á leiðinni að hann sé ekki "hættulegur" er þrennt. Þetta sjáið þið vel, svona 10-20 metra frá hvor öðrum þegar hundarnir sjá hvorn annan, áður en þeir hittast, tala þeir saman og tékka á stöðunni á hvor öðrum. Það er þetta sem hvolpar verða að læra af öðrum hundum.
- Líta undan. Sumir líta til hægri eða vinstri, en sumir bara líta aðeins undan, svona til hliðar með augun.
- Þefa af jörðinni. Allt í einu byrja þeir að þefa í kringum sig, líta aftur á hundinn og þefa svo aftur.
- Leggjast niður. Ég hef sérstaklega tekið eftir þessu hjá smalahundum.
Flestir hundar gera fyrstu tvo punkta saman svo þetta er auðvelt að sjá.
Hvolpurinn þinn mun alveg pottþétt taka eftir þessu.
Síðan heilsast þeir. Flestir hundar fara líka í sviga kringum hvor annan áður en þeir snertast með trýnunum, það er líka kurteisi að gera það.
Hvolpurinn er smeykur fyrst en eftir smá stund byrja þeir að leika saman. Hvolpurinn man þetta næst þegar hann hittir hund og þegar næsti hundur gerir þetta líka þá fer hann að tengja þetta við að þetta sé góður hundur og byrjar á þessu sjálfur.
Við getum líka séð góða hunda frá slæmum á þennan hátt. Ef þú sért að hundurinn sem er á leiðinni til ykkar gerir þetta ofangreinda þá eru stórar líkur á að allt muni ganga vel.
Ef það kemur hundur hlaupandi að ykkur og starir allan tímann á hvolpinn og gerir ekkert af þessu fyrir ofan, já þá er spurning hvort þú reynir að passa hvolpinn þinn aðeins.
En það eru margir fullorðnir hundar sem stara svona sem ekki endilega ætla að éta hvolpinn þinn.
Þeir hundar kunna ekki alveg að hegða sér, hefur verið klikkað eitthvað í að læra það sem hvolpur. Oft eru þetta eldri karlkyns hundar sem "eiga" hundasvæðið og vilja sýna hver ræður.
Eitt sem er gott að vita er að hvolpar eru alltaf "safe". Hvolpar eru með svona freepass. Fullorðnir hundar vita alveg hver er hvolpur og hver ekki. Og þessir stóru stjórnsömu hundar láta yfirleitt hvolpa í friði.
Ef einhver fullorðinn hundur ræðst á annan hund, hvað þá hvolp, þá er eitthvað að í kollinum á honum og/eða heima hjá honum.
Hundar sem eru barðir heima, taka það út á minnimáttar hundum seinna, alveg eins og börn sem eiga erfitt heima eiga það til að leggja aðra í einelti í skólanum.
Svo í lokin vil ég bara segja að hundatungumálið er alveg eins og okkar, ekki talmálið en hvernig við látum aðra vita að við erum ekki hættuleg.
Þegar ég mæti þér á gangstéttinni lítum við bæði undan til að "ógna" ekki með því að stara í augum. Ef ég myndi stara í augun á þér myndir þú verða hrædd/ur.
Við tökum smá sveig þegar við mætumst. Það er bara kurteisi að gefa hvort öðru smá space.
Þetta gera hundar líka á sinn hátt.
Gjarnan kommenta hvað ykkur finnst
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 09:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Spurning frá lesanda um að ekki hlýða við innkall.
Þetta með að gefa neikvæðri hegðun enga athygli...það virkar ekki alveg á eitt vandamál sem ég er með í sambandi við hundinn minn..ég bý í litlu þorpi og hleypi alltaf hundinum lausum úti garð, einum (engin girðing) Fyrri hundurin okkar var bara í garðinum og fór ekkert og kom svo bara inn þegar hann var búinn að gera sitt. Það gerir þessi líka nema ef hann sér e-ð spennandi. Hann sér kannski manneskju langt í burtu og geltir. Þá kem ég í hurðina og kalla á hann ákveðið. Hann heyrir alveg í mér en bara ÁKVEÐUR að hunsa það og þykjast ekki heyra. Lítur oft á mig og sér mig kalla en hleypur samt að stað í átt að manneskjunni til að heilsa henni. Alveg óþolandi að hann geti stundum ekki hlýtt mér þegar ég kalla, gerir það kannski í 80% tilvika en svo finnst honum stundum eitthvað svo spennandi að hann nennir ekki að hlýða mér. Er búin að prófa sumt en ekkert virðist virka..veit ekki alveg hvað ég á að gera....
Já gleymdi að spyrja, hvernig á að hunsa neikvæða athygli að leysa þetta vandamál? Ég get ekki bara hunsað það að hann hlaupi geltandi að einhverji manneskju (ekki að það sé einhver hætta af honum, hann fer bara að sleikja ókunnugu manneskjuna)...og með því að hlaupa á eftir honum og kalla á hann er ég að gefa honum athygli..... Elsa.
Sæl Elsa.
Það er þekkt vandarmál að hundar vilji ekki koma þegar kallað er á þá. Og þú hefur rétt fyrir þér, það er ekki hægt af þinni hálfu að bara hunsa þetta og veita ekki athygli til þess að hann hætti þessu. Í rauninni er það persónan sem hann vildi heilsa upp á sem verður að hunsa hann því að fá klapp frá þessum aðila eru verðlaunin og það er erfitt fyrir ókunnugt fólk að vita þetta.
Förum fyrst yfir af hverju hann vill ekki hlýða þér í þessum aðstæðum. Hann er einn úti í garði, sér etthvað spennandi og vill þangað, þú vilt það ekki og kallar.
Hvað hugsar hundurinn þá? Jú kannski hugsar hann eitthvað svona: "ok hún mamma kallar, en af reynslu veit ég að þá fer ég bara inn og það er leiðinlegt. En þetta þarna er svolítið spennandi og best að fara þangað aðeins fyrst."
Hundar gera bara það sem borgar sig fyrir þá!
Þeir muna allt. Fyrstu skiptin sem þú kallaðir hann inn sem hvolp kom hann hlaupandi alveg á hundraði svaka spenntur um hvað var í gangi. Hann man vel núna að þegar hann kom þurfti hann bara að fara í taum eða fara inn og ekkert spennandi gerðist.
Hann lærði þá að það borgar sig ekki að koma til þín, ekki alveg strax allavega.
Það sem við getum gert er að að æfa innkall rosalega vel. Svo vel að það fer inn í undimeðvitundina og hann kemur eins og skot þegar kallað er.
Það fyrsta sem þarf að gera er að hafa eitt orð yfir innkallið. Og það Á EKKI AÐ VERA KOMDU. Það er að því að komdu er eitthvað sem allir segja við hann og þar með hættir hann að nenna að hlusta. Finnið eitthvað orð, td. " HINGAÐ" og það er orð sem bara þið notið (það á heldur ekki að nota nafnið hans við innkall).
Í byrjun notið bara "hingað" þegar þið vitið að hann muni koma, ef þú ert ekki viss hvort hann muni koma eða ekki, gerðu þá eitthvað annað til að fá hann til þín. td að hlaupa allt i einu í hina áttina. Hundar eru flokkdýr og vilja fylgja sínum flokki og ef hann kemur ekki þá getur verið að honum finnist þið tvö ekki vera flokkur.
Til að kenna orðið "hingað" geturðu byrjað á því að hafa FULLT af nammi, td pylsum og segja hátt og skýrt "hingað" og troða strax pylsum upp í hann. Gerðu þetta nokkrum sinnum og þá er hann fljótur að fatta að orðið "hingað" ert þú með eitthvað rosalega spennandi í boði og mun veita þér alla sína athygli.
Svo eftir einhvern tíma þegar hann er nokkra metra í burtu og ekki upptekinn við eitthvað annað (skulum ekki gera þetta erfitt í byrjun) segir þú "hingað" og ert tilbúin með nammi og hrós handa honum.
Athugaðu að þegar þú segir "hingað" verður þú að vera tilbúin með verðlaun.
Markmiðið með þessari æfingu er að fá hundinn til að snúa við og hlaupa til baka til þín um leið og þú kallar. Á þá ekki að skipta neinu máli að hverju hann var að hlaupa í byrjun, hann á alltaf að hlaupa til þín þegar hann heyrir þetta orð. Svo að til þess að hann vilji þetta verðum við að verðlauna hvert einasta skipti, annars hættir hann að nenna, borgar sig ekki hugsar hann.
Þegar hann er hvolpur eru þessar æfingar bara leikur. Það er ekki ætlast til að hvolpar snúi við og komi til okkar. Við getum ekki farið að krefast þess fyrr en hundurinn er að verða 2 ára. Svo þangað til er bara að leikæfa þessa æfingu.
Passaðu vel að tapa ekki. Sem sagt ef þú ert ekki viss, gerðu þá eitthvað annað til að fá athygli hans fyrst og þá kannski prufa að kalla "hingað" því ef þú kallar og hann kemur ekki ertu að strax að skemma fyrir þér orðið.
Aldrei að segja orðið meira en einu sinni.
Gerið þessar æfingar nokkrum sinnum á dag bæði úti og inni. Hafið alltaf nammi í poka í jakkanum með ykkur út og verðlaunið góða hegðun. Alltaf þegar hundurinn kemur til ykkar þá gefa honum smá.
Og ath. ekki vera úti í garði að gera þessa æfingu.. hundar eru löngu búnir að þefa alla bletti í garðinum og ekkert meira spennandi þar.. svo auðvitað verða þeir hlýðnir og vilja koma þegar þú ert að æfa þar. Farið út að labba og takið æfingar inn á milli.
Notaðu líka það að hundar eru flokkdýr. Ef hann er t.d. 20 metra fyrir framan þig.... snúðu allt í einu við og labbaðu tilbaka... ekki láta hann ráða ferðinni með að vera alltaf fyrstur. Þú ert flokkstjórinn og hann á að fylgja þér.
Taktu líka allt í einu sprett og hlauptu í hina áttina. Þessar æfingar gera það að verkum að hann fer að fylgjast betur með þér. Aldrei bíða eftir hundinum þegar hann er að þefa einhverstaðar, bara halda áfram, það er hans vinna að týna þér ekki.
Ef hann hleypur frá þér, og ef það er mögulega hægt þá farðu i hina áttina. Alls ekki hlaupa á eftir honum. Þá ræður hann hugsar hann.
Farðu í hina áttina og feldu þig kannski bak við eitthvað og bíddu. Ef þú býrð á svæði þar sem mikil umferð er eða þessháttar hættur er betra að finna hættuminni stað til að æfa þetta.
Bíddu þangað til þú sérð hann koma hlaupandi og leita að þér. Hann hleypur sennilega á staðinn þar sem hann fór frá þér og leitar þaðan... og láttu hann leita smá (fínt að fela þig á stað þar sem þú sérð hann en hann ekki þig), leyfðu honum að fá smá panik og fatta að hann sé búin að týna þér... en eftir smá stund.. hálfa til eina mínútu, þá birtist þú allt í einu. Hann á ekki að sjá að þú hafir falið þig heldur sér hann þig bara allt í einu og mun hann þá koma hlaupandi til þín.
Þá er mikilvægt að hrósa EKKI. Ekki segja neitt, það er bara partur af hans lífi að fylgjast með þér.
Eftir nokkur svona atvik mun hann alveg hætta að hlaupa frá þér.
Ef þetta virkar ekki þá er annað að hjá ykkur. Það getur verið að hann fái bara ekki næga útrás yfir daginn og tjúllist þegar hann er loksins laus úti. Einnig getur verið að honum finnist þið ekki alveg vera flokkur og ef svo er skrifaðu mér og við getum rætt hvað hægt er að gera til að breyta því. Það getur verið svo margt.
Svo fer þetta lika eftir persónuleika hundanna eins og ég sagði frá þegar velja átti hvolp. Sterkir persónuleikar þora að vera lengur frá sínum flokki þegar veikari persónuleikar þora varla að labba tvo metra frá þér.
En notist við þetta... ef hundurinn fer til vinstri farið til hægri. Ef hann hverfur frá ykkur látið þið ykkur líka hverfa. Þið ráðið ferðinni.
Alltaf verðlauna innkall. Notið spariorð fyrir innkall og notið komdu þegar það er ekki mikilvægt hvort hann komi eða ekki.
Svo Elsa, þegar þú ert búin að æfa þetta í smá tíma geturðu prufað þetta líka í garðinum. EN... hann mun fljótt fá leið á þessu ef hann þarf alltaf að fara inn.
Segjum sem svo að hann sé úti í klukkutima. Á þessum klukkutima ertu kannski búin að kalla á hann sjö sinnum og gefa nammi og hrósa og leyfa honum svo að halda áfram með sitt. En í áttunda skiptið þarf hann að fara inn. Þannig veit hann aldrei hvað gerist... og sennilega er eitthvað jákvætt sem gerist. Þetta viljum við að hann hugsi.
Annað mál er að hundum finnst ekkert ofsalega gaman að vera einum úti garði. Þá byrja þeir fljótt á ósiðum til að stytta sér stundir, svo sem að gelta á vegfarendur eða bíla.
Farðu meira með hann út í göngutúr og leyfðu honum að hlaupa um lausum ef það er mögulega hægt.
Taktu hlýðniæfingar, það er líka mikilvægt fyrir hundinn því þá þarf hann að "vinna" og verður þreyttur eftir á, verður þá líka sáttari við lífið og nennir ekki að finna einhverja ósiði að dunda sér við.
Að rekja slóð er líka góð heilaæfing fyrir alla hunda og ætla ég seinna að fara yfir hvernig það er gert.
Vonandi svaraði þetta því sem þú varst að pæla, ef ekki komdu með komment og ég skal bæta við:)
kv.
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 09:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Hrós!!!!!!
Hrós er eitthvað sem ekki allir fatta hversu mikilvægt er til að geta tjáð sig svo hundurinn skilji.
Það er þrennt sem hundurinn vill hér í lífinu:
- Athygli
- Hrós og klapp
- Nammi
Bara það að fá athygli er flestum tilfellum nóg til að vilja gera "það" aftur. Og þá meina ég slæma og góða hluti.
Td. Hundurinn geltir allt í einu inni. Þú talar til hans og nöldrar eitthvað um að þegja. Athygli!! Best að gera þetta aftur seinna.
T.d. Hundurinn sest niður og dillar skottinu og horfir á þig. Þér finnst hann ofsa sætur svona og byrjar að tala við hann. Athygli!! Best að reyna þetta aftur sienna.
Við getum valið hvað við viljum að hundurinn reyni aftur. Ef hann gerir eitthvað til að prófa hvað hann fær út úr því og ef það er eitthvað slæmt, þá megum við ekki nota þetta þrennt. Ef það er eitthvað gott þá er fínt að nota 1 eða 2 eða alla 3 hlutina sem verðlaun.
Að ýta undir jákvæðni og "ekki taka eftir" neikvæðninni þegar hann er hvolpur er eitthvað sem er þrælsniðugt því hvolpar gera ekkert allan daginn en að athuga hina og þessa hluti, prófa hvað hann fær út úr að gera hitt og þetta.
Þegar hann gerir eitthvað alveg NEINEI er orðið NEI notað. En passið að veita honum ekki athygli strax á eftir. Gerið eins og ég útskýrði í fyrra bloggi og farið strax að gera eitthvað annað, sem sagt hunsa hvolpinn. Ekki láta hann sjá að þú sért að horfa á hann svo hann telji sig ekki fá athygli.
Það þýðir ekkert að standa og segja "nei elsku Snati minn ekki gera þetta, nei það er bannað krúttið mitt" og svo klappa honum. Þá ertu að verðlauna slæma hegðun.
En ok. Hrós er mikilvægt. Að hafa eitt orð td. DUGLEG/UR og nota bara það og ekkert annað. Ofsalegaertudugelgursnatiminn virkar ekki eins vel. Eitt stutt orð sem alltaf er sagt eins. Í byrjun er gott að gefa nammi og segja orðið svo hann byrji að tengja það við eitthvað jákvætt. Seinna meir þarftu ekki alltaf að gefa nammi með, bara stöku sinnum, þá frekar bara þegar þú ert að gera hlýðniæfingar.
Finnið ykkar hátt að hrósa hundinum og gerið alltaf eins, þá lærir hann fljótt orðið og skilur ykkur betur.
Ef hrósið hjá ykkur er fullkomið og NEI-ið er fullkomið þá eruð þið komin með besta hund i heimi!
Það þarf í rauninni ekkert meira til að gera hann að góðum heimilishundi svo eftir þetta er bara spurning um hvað þú vilt að hann kunni í hlýðniæfingum og þess háttar kúnstum sem skemmtilegar eru til að stytta sér stundir.
Endilega gefið mér smá komment um hvað ykkur finnst og komið með spurningar...
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 22. apríl 2007
Pissa úti takk.
Það er oft sem nýir hundaeigendur eiga í vandræðum með að hvolpurinn pissar og kúkar inni.
Til eru misjöfn ráð við því og vil ég hér taka upp nokkur sem virka ekki:
- Setja dagblöð út um allt og leyfa honum að gera á þau. Það virkar ekki því þetta ruglar hann bara meira og hann fattar ekkert að hann á eiginlega að fara út.
- Skamma hvolpinn þegar hann gerir inni. Það virkar ekki því hundurinn heldur þú sért að skamma hann fyrir að gera þarfir sínar og verður bara stressaður þegar hann þarf að pissa/kúka.
- Ýta hvolpinum að pissinu/kúknum og segja hart nei. Þetta virkar ekki út af sömu ástæðu og í punktinum hér fyrir ofan.
Hvolpar eru með mjög litla pissublöðru. MJÖG litla, sem þýðir að ef eitthvað kemur inn, þá þarf eitthvað að fara út.
Hvolpar sem eru 2 mánaða þurfa að pissa svona á korters fresti. Þegar þú ert að koma heim með hvolpinn í fyrsta sinn, er mjög gott að fá hann heim t.d. á föstudegi og vera svo alveg í fríi næstu tvo daga til að geta verið með hvolpinum.
Það þarf að fara með hann út í garð á korters fresti fyrsta og annan daginn. Ef það er gert eru stórar líkur á að eftir þessa helgi verði hann orðinn vanur að gera úti og muni ekki pissa inni nema bara ef verður smá slys.
Ótrúlegt segirðu? Tveir dagar og hundurinn orðinn vanur að gera úti? Jú, ég held þessu fram og hef sjálf gert þetta með hvolpa, en til að þetta takist verður maður aðeins að vita meira um hvenær og hvernig og af hverju.
Hundar hafa sínar "reglur", eitthvað sem þeir fylgja er í eðlinu þeirra. Hvolpar vita bara þessar reglur og fylgja þeim.
T.d. er ein regla sú að hvolpar eru neðst og eldri hundar "fyrir ofan þá". Hvolpar vilja ekki ögra eldri hundum.
Þess vegna vilja hvolpar ekki pissa hvar sem er. Að pissa er ekki bara að losa sig við vatn, heldur er það líka að merkja eins og flest okkar vita. Svo þar sem eldri hundur hefur pissað, vill hvolpur ekki pissa yfir. Þá er hann að ögra þeim eldri. Þess vegna eru hundar oft mjög lengi að pissa... þeir þefa um og eru að leita að stað þar sem er "óhætt að pissa".
Og þetta er þannig með litla hvolpa, þeir þora ekki að pissa úti og er "öruggast" að pissa inni. Þeir vilja samt ekki pissa inni en þeim finnst þeir hafi ekkert annað val. Best er þá að fara oft með hvolpinn út. Finna stað nálægt húsinu, kannski bara rétt fyrir utan dyrnar, eða bak við húsið. Ef hvolpurinn pissar þar einu sinni er fínt að nota þennan stað þangað til hann finnur annan stað sjálfur.
Hrósaðu rosalega vel þegar hann pissar úti, klappaðu honum og leiktu við hann strax og hann er búinn.
Það er líka mjög hentugt þegar hann pissar að segja "pissa" svo eftir smá tíma fer hann að binda þetta orð við pissið og seinna meir geturðu sagt honum að pissa. Ef þú veist að þið eruð að fara í langan bíltúr eða þess háttar og vilt að hann pissi þá er voða gott að geta sagt pissa og hann fattar það og pissar.
Hundar vilja sem sagt ekki pissa þar sem þeir "búa" svo það er mjög auðvelt að venja þá á að gera úti.
Hvolparnir eru eins og ég sagði áður með mjög litla blöðru og er fínt að vita þetta:
Hvert skipti sem hann hefur sofið, þarf hann að fara strax út.
Hvert skipti sem hann hefur drukkið, þarf hann að fara strax út.
Hvert skipti sem hann hefur borðað, þarf hann að fara strax út.
Hvert skipti sem hann hefur leikið sér í smá stund, þarf hann að fara strax út.
Það er ekkert víst að hann pissi í hvert skipti sem hann fer út, en þetta er mikilvægt að gera fyrstu dagana svo hann fatti að hann fær að fara oft út, að fara út er partur af lífinu og þá vill hann miklu frekar gera úti og mun læra það fyrr.
Svo verið í fríi og hjálpist að fyrstu dagana eftir heimkomu, ég lofa því að það er þess virði. Ef þið gerið þetta ekki verðið þið sennilega næsta hálfa árið að þrífa piss og kúk af teppinu. Já teppið... hann mun alltaf velja teppið eða mottuna sem er erfiðast að þrífa. En ef þið pælið í af hverju, þá er það frekar augljóst. Hann finnur stað í íbúðinni þar sem pissið "hverfur" eins og á grasinu úti. Hann er sem sagt bara að reyna að hjálpa. Hann veit náttúrulega ekki hversu erfitt er að þrífa.
Fyrstu dagana fylgist með honum alltaf. Ef t.d. þið eruð öll inni í stofu og hann fer allt í einu af stað og fer fram á gang, farið þá á eftir honum til að gá hvað hann er að bralla. Það eru miklar líkur á að hann þurfi að pissa, þeir eiga til að draga sig svona frá hinum og eru að fara að leita að stað sem passar að pissa á. Farið þá bara strax út.
Svo ef þið sjáið hann þefa af gólfinu eða vegg eða einhverju þá getur verið að hann sé að leita að stað líka. Svo ÚT STRAX.
Gott er að segja t.d. "Förum út að pissa", þá lærir hann líka á það.
Svo þarf þolinmæði við þetta, hann mun kannski ekki pissa úti en það er mikilvægt að gefast ekki upp heldur hugsa bara "korters fresti". Ef hann er ekki búinn að pissa eftir 5 mín úti farið þá aftur inn og fylgist með honum því hann þarf að pissa og er oft sem þeir pissa um leið og komið er inn því það er öruggara. Þegar hann er komin inn eftir að hafa ekki pissað úti... standið hjá honum og fylgist með honum og ef það er langt síðan hann pissaði síðast vitið þið að hann þarf og þá er bara spurning um tíma hvenær hann lætur bununa falla. Líti hann út fyrir að vera hugsi og þefandi bíðið bara í smá tíma ( 1-5 min ) og farið svo aftur út.
Þetta er gert fyrstu 2 dagana. Þið getið ekki gert neitt annað þessa helgi.
Ef hann skyldi nú að pissa inni, ef þið sjáið hann pissa farið bara að honum strax, takið hann upp og hlaupið út. Ekki skamma hann eða segja nei. Hann veit hvort eð er ekkert hvað það þýðir og þess vegna óþarfi. Svo best er að ná honum þegar hann er að fara AÐ pissa og þá hlaupa með hann út. Ef hann er búin að pissa og þið sáuð það ekki, þá þýðir það að þið verðið að fylgjast betur með honum. Það þýðir ekkert að skamma og sérstaklega ekki eftir á.
Ef hann pissar inni og hann er búinn þegar þið náið að hlaupa út, þá fara bara samt strax út. Ekki hætta við að fara út.
Athugið að þetta sem ég skrifa fyrir ofan er bara fyrir fyrstu dagana. Það er alveg þess virði að fórna sínum frítíma í hvolpinn til að losna við þetta vandarmál sem fyrst. Ef þú átt heima á jarðhæð er þetta ekkert mál. Verra ef þú átt heima á annarri hæð eða ofar, en það er samt engin afsökun. Þið vissuð það þegar þið fenguð hvolpinn og þið verðið bara að hlaupa upp og niður. Og best að nefna þá að þið verðið að halda á hvolpinum upp og niður tröppur fyrstu mánuðina. En það eina sem þið tapið á þessu hlaupi eru nokkrar kaloríur svo það er ekkert slæmt.
Ef þú ert ekki í standi til að fara svona oft út þá er sniðugt að fá hjálp þessa helgi. Fá einhvern til að hlaupa með þér eða fyrir þig.
Blaðran á hvolpinum stækkar hratt og getur hann farið að halda meir og meir í sér næstu vikur. Svo þetta með á korters fresti er bara fyrstu dagana svo má fara sjaldnar, breyta í hálftíma og svo klukkutíma og svo einn og hálfan og svo koll af kolli.
Varðandi fyrstu næturnar farið þið með hann út þegar þið farið að sofa og svo vaknið bara þegar hann vaknar og farið strax út! Ef hann vaknar um miðja nótt er gott að fara út með hann þá. En þetta á að vera óþarfi eftir nokkra daga/viku. Þá á hann að geta haldið í sér í átta tíma yfir nóttina.
Svo, munið að fara alltaf á sama stað bara rétt fyrir utan húsið, finna stað sem aðrir hundar hafa ekki aðgang að eða lítinn aðgang. Þanni verða meiri líkur á að hann þori að gera þar.
Hvolpar á þessum aldri þurfa ekki að fara út að labba, það kemur seinna. Núna er nóg að fara bara rétt út til að kíkja og pissa og kúka.
Litlir hvolpar elta "mömmu sína" vel, svo það er kannski ekki þörf á bandi strax. Metið það sjálf eftir hvar þið búið. Þegar þið eruð að venja á að pissa úti er kannski ekki sniðugt að hann sé að pirra sig á hálsól og bandi í leiðinni.
En þetta verðið þið að meta sjálf. Mér finnst best að hafa hvolpana eins mikið frjálsa og hægt er og á það líka við fullorðna hunda. Það gerir þá hlýðnari og þeir halda sér meira hjá manni.
Hundar sem alltaf eru í bandi og fá aldrei að vera frjálsir geta fengið algjört kikk og farið að hlaupa á fullu ef þeir skyldu losna einhverntíma, þá heyrir maður bara einhvern eiganda öskra alveg á fullu einhverstaðar í fjarska. hehehe...
En ég ætla skrifa um það seinna þegar ég fer inn á hlýðnina.
Ég vil með þessu bloggi fræða Íslendinga betur um hunda svo hundarnir hagi sér betur. Mér finnst nefnilega allt of miklir fordómar í gangi og mikið af "hundar bannaðir" skiltum út um allt. Ef allir hundaeigendur kenna sínum hundum rétt, þá kannski slaka yfirvöldin aðeins á og leyfa okkur að vera með hundana á fleiri stöðum.
SVO ÞESSVEGNA EIGA ALLIR AÐ TAKA UPP SKÍTINN EFTIR HUNDINN SINN!
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. apríl 2007
Að fara með hvolpinn heim.
Núna ertu búin að velja þér sætan lítinn hvolp. Þá er komið að því að undirbúa heimilið fyrir hvolpinn.
Það sem þarf að kaupa er þetta:
- Þurrfóður, spyrjið í dýrabúðinni með hverju þau mæla fyrir hundategundina þína.
- Búr (ég ætla að skrifa af hverju búr er mikilvægt)
- Mjúka dýnu sem seinna meir fer í búrið svo það er fínt að kaupa eina sem passar í það.
- Matarskálar, naglaklippur, nagbein, leikföng, bursti, hálsól og taumur. Ég mæli með að þið kaupið ekki svona "flexi-band", heldur frekar taum sem er góð lengd á.
Búr er eitthvað sem margir halda að sé neikvætt fyrir hundinn. En ef maður kynnir búrið fyrir hvolpinum á réttan hátt mun hann fljótt slappa af í því og þetta verður hans staður þar sem hann fær frið og slappar algjörlega af.
Svo þegar hann er einn heima er mjög gott að hafa hann í búrinu, þá þarf hann heldur ekki að vakta alla íbúðina og slappar betur af.
Þeir sem venja hundana á búr, sjá fljótt að hann fer oft sjálfur inn og leggur sig (ath, ekki nota búrið fyrstu vikuna sem hann er heima).
Flexi band er hlutur sem kannski átti aldrei að búa til. Það kennir hundinum að toga í bandið. Það er ekki öruggt, læsingin getur allt i einu klikkað og hefur gerst að hundar verða fyrir bíl því læsingin bilaði.
Ég mæli með að kenna hundinum fyrst að ganga fallega í bandi án þess að toga og svo seinna meir þegar hann er orðinn eldri að fá þér þá flexi ef þú endilega vilt.
Hafa hundinn í fanginu og fá einhvern annan til að keyra heim.
Núna ertu komin með allt á hreint og tilbúin að fara ná í hundinn. Fáðu einhvern með þér að ná í hann. Taktu hann í fangið og haltu á honum meðan hinn aðilinn keyrir. Ef hann ælir verður bara að hafa það. Alls ekki skamma hann eða gera eitthvað sem hræðir hann meira.
Þetta er stór breyting sem gerist núna og best að reyna hafa þetta sem rólegast fyrir hann.
Það er ekki mælt með því að setja hundinn í skottið eða einan í bílinn í fyrsta sinn. Ef þú gerir það eykur þú líkurnar á að hundurinn verði bílveikur/hræddur í framtíðinni. Það kemur að því seinna að venja hann á að vera í skottinu t.d. Ekkert er "eyðilagt" með því að halda á honum í fyrsta skiptið.
Leyfið hundinum að þefa og labba um í friði
Þegar komið er heim er mikilvægt að leyfa hvolpinum að kíkja á nýja heimilið sitt i friði og ró. Ef það eru börn á heimilinu eru þau væntanlega mjög æst og vilja leika við hundinn. En verið endilega búin að útskýra fyrir þeim að fyrsta daginn þá verða þau að láta hundinn vera. Leyfa honum að þefa og labba um í friði.
Þá róast hann fljótar niður og sættir sig fyrr við nýjar aðstæður.
Látið hundinn sjálfan finna svefnstaðinn sinn.
Þeir eru spes, þessar elskur og hafa vissar hugmyndir um hvar þeir vilja sofa og hvar ekki. Þegar hvolpurinn er búinn að þefa um alla íbúðina í dálitla stund þá er hann orðinn þreyttur og fer að finna hvar hann getur lagst niður. Hann velur örugglega eitthvað horn og þar sem hann dettur niður af þreytu settu dýnuna þangað og leyfðu honum að sofna þar.
Fyrsta nóttin - hafa hundinn við rúmið á dýnu og klappa honum ef hann vaknar.
Þegar komið er að háttatíma og allir að fara sofa þá er fyrsta nóttin svolítið sérstök fyrir hann, því hann vaknar mörgum sinnum á nóttinni og byrjar að sakna mömmu og systkinanna. Saknar hitans.
Þess vegna er mælt með því að hafa dýnuna hans við rúmið þitt.. svo þegar hann vaknar þá ertu nálægt og getur lætt höndinni niður og klappað honum. Það róar hann strax, bara að vita að hann er ekki einn.
Að hafa hann upp í rúmi er eitthvað sem þú verður að meta hvort þú vilt. En ef þú velur það, þá verður hann líka að fá það þegar hann er orðinn stór og mikill hundur.
En bara svona til að segja það þá er mjög þægilegt að leyfa þeim það ekki. Þá reyna þeir aldrei að hoppa upp. Það er krúttlegt þegar þeir eru litlir en eftir ár eða tvö þegar þessi hundur er ekki svo lítill lengur er það ekki jafn krúttlegt og margir byrja þá að reyna að venja hann af þessu. En það gengur misvel því hundurinn vill alltaf reyna og þá sértaklega þegar þú ert ekki heima. Það er bara ekkert skemmtilegt, þegar hann er t.d. í hárlosi sem er mánuð í senn tvisvar á ári, að sjá varla rúmið fyrir hárum.
Í næsta bloggi skrifa ég um pissu stand á hvolpum og hvernig maður best kennir þeim að gera úti :)
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Að velja hund
Ok, þið ætlið að fá ykkur hund.. og til hamingju með það.
Fyrst vil ég fara í gegnum hvernig best er að velja hundategund.
- Kíkið á netið. Finnið hundategund sem þið getið hugsað ykkur að eiga og lesið allt um þessa tegund. Finnið út kosti og galla og metið hvort þetta henti ykkur.
- Hvað viljið þið gera með hundinum? Ákveðið það og veljið hundategund út frá því. Reynið að forðast að velja t.d. "veiðihund" ef þið viljið ekki æfa veiði eða annað slíkt. Hundategundirnar eru með sitt eðli og það er ástæða fyrir að þeir heita t.d. veiðihundar eða smalahundar. Þeir þurfa að fá að æfa sig á sínu sviði.
- Hversu mikla hreyfingu eruð þið tilbúin að gefa hundinum daglega? Sumar tegundir krefjast mun meiri hreyfingu og leiks en aðrar.
- Hárlos. Hársnyrting. Viljið þið dúlla með hundinum, greiða og kemba eða viljið þið ekkert þurfa að sjá um feldinn? Mikilvægt að vita að t.d. puddel þarf að þvo og greiða og blása oft á viku meðan hjá t.d. Border Collie þarf ekkert að sjá um feldinn, bara baða svona annað slagið þegar komin er vond lykt.
Núna eruð þið kannski komin með drauma hundategundina og viljið fara að leita að hvolpi.
Því miður er ennþá mikið um það hér á landi að hundar séu gefins. Gott fyrir okkur sem viljum hvolpa en slæmt fyrir hvolpinn því það gerir að verkum að fleiri fá sér hunda án þess að hugsa sig tvisvar um. En þetta er að koma hér á landi og hreinræktaðir hundar eru orðnir dýrir sem er mjög gott því þá er fólki meira alvara með að fá sér hund.
Ég ráðlegg öllum sem eiga tík sem er með hvolpa að gefa ekki hvolpana. Ef þú vilt að hvolparnir fái gott heimili settu þá eitthvað verð á hvern hvolp þótt það sé lítið. Það hræðir strax burtu marga sem eiga ekki að fá sér hund.
Að velja hvolp úr flokknum
Þegar þið farið að skoða hvolpana og "velja einn" úr hópnum þá er margt sem þið verðið að hafa í huga.
Hver hundur hefur persónuleika. Það er hægt að skipta þeim í flokka; sterka, miðlungs og veika persónuleika.
Hafið þið einhverntíma heyrt um eða jafnvel gert það sjálf að taka hvolpinn sem kom hlaupandi að ykkur og hugsað að hundurinn valdi ykkur?
Þetta er það versta sem þið gerið.
Því það er svo að sá hvolpur sem "þorir" að koma fyrstur til ókunnugs fólks er sá sem er með sterkasta persónuleikann. Hann er mest dominant af þeim og þorir mest af þeim.
Þessi týpa mun verða erfiðust að ala upp. Týpan mun verða mjög sjálfstæð. Og bara þeir sem vita alveg út í hvað þeir eru að fara geta höndlað þessa týpu þegar hún verður fullorðin.
Ef þið eruð alveg græn í hundum skuluð þið ekki velja fyrsta hvolpinn eða hvolpinn sem virðist mest áberandi og dominant.
Það fer eftir því hvað hvolparnir eru margir en takið eftir röðinni sem þeir koma til ykkar. Ef við segjum að hvolparnir eru 7 alls þá skaltu forðast nr 1 og 2. nr 3,4,5 eru mest "safe" að velja því þeir eru miðlungs í persónuleika. Sá sem kemur ekki eða síðastur er mest hræddur af þeim og getur orðið alger gunga og skíthræddur við allt og alla.
En auðvitað er þetta engin pottþétt regla sem á við allt og alla. En gott að hafa þetta bak við eyrað svo þið vitið svona nokkurn veginn hvernig hund þið eruð að fá.
Eitt einn sem hægt að hugsa um er þegar þið sitjið þarna og eruð að leika við hvolpana, takið þá upp og takið eftir hvað þeir gera. Ef þeir bíta eða urra þegar þeir eru teknir upp getur það verið vísbending um persónuleika sem getur verið erfiður í framtíðinni. Ef hann fer alveg í klessu þegar fólk nálgast hann er það líka vísbending um famtíðina.
Takið hvolpinn sem er smá hræddur í byrjun en samt voða forvitinn á ykkur og langar að koma og þefa.
Horfið líka á mömmuna, og fáið að sjá hana og klappa henni. Hún er að ala ykkar hvolp upp og er mikilvægt að hún sé heil í hausnum. Ef pabbinn er ekki á svæðinu spyrjið um hann, um hans geðheilsu.
Svo er líka mikilvægt að sjá umhverfið sem hvolpurinn er í fyrstu 2 mánuðina hans. Er hann í heimahúsi eða eru þeir innilokaðir í gömlu fjósi? Það sem hann upplifir fyrstu mánuðina er mikilvægt fyrir framtíðina. Ef hann sér engan og ekkert þá eru miklar líkur á að hann verði taugaveiklaður þegar hann er orðinn stór.
En ef hann fær að fara út og upplifa mikið bæði inni og úti og hittir fólk reglulega eru góðar líkur á að hundurinn verður tryggur fjölskylduhundur.
Gangi ykkur vel.
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Mamma, má ég fá hund?
Margir vilja fá sér hund. En miklu fleiri vilja fá sér hvolp!
Það sem ég meina er að hvolpar eru sætir og geðveikt freistandi að fá sér einn sætan yndislegan lítinn hvolp.
Sérstaklega börn, hver hefur ekki heyrt eða sagt " mamma, pabbi.. .mááááá... ég ekki fá einn hvolp ég skal loooooooofa að sjá um hann alveg sjálf.... geeeeeeeerðu það"
Og flestir foreldrar sem vilja eiginlega ekki hund segja nei. En það er því miður alltaf einhverjir sem láta eftir nuðinu og gefa barninu hvolp.
Að fá sér hvolp er eitthvað sem allir fjölskyldumeðlimir verða að vera sammála um. Allir eiga að fara með hann út og hjálpast að við að sinna honum. Annars er möguleikinn stór á að maður sjái auglýsingu eftir 8 mánaði .... hundur gefins... og gjarnan vegna ofmæmis.. (get ekki trúað því að allur þessi fjöldi sé með ofnæmi. )
En af hverju 8mánaða? Af hverju eru svo margar auglýsingar þegar hvolpurinn er að verða hundur? Það er af því að hundurinn er orðin "táningur" og allt sem honum var "ekki" kennt þegar hann var lítill er farið að verða alltof áberandi og óþolandi núna. Svo er líka fyrsta hárlosið á þessum tíma.
Eitt hef ég heyrt alltof oft.. "hann er svo lítill og sætur, verðum að leyfa honum að vera hvolpur". En það sem fólk gerir sér þá ekki grein fyrir, er að þá verður hann líka svona "hvolpur" þegar hann er orðinn meter á hæð og 25kg.
Það sem hundurinn fær að gera þegar hann er hvolpur, man hann vel sem fullorðinn og mun gera það þá líka.
Ég vil líka taka fram að börn vita ekki hversu mikillar ábyrgðar hundurinn krefst. Það er ekki hægt að ætlast til þess af barni að sjá um hundinn. Foreldrar verða að taka ábyrgðina svo má barnið hjálpa til og hafa vissar skyldur gagnvart hundinum td. að alltaf verða að labba með hundinn þegar komið er heim úr skóla.
Ég ætla að fara yfir hvers hundar krefjast svona dags daglega.. Hvaða þarfir hafa hundar?
- Hundar þurfa hreyfingu á hverjum degi. Og minnst 3 göngutúra á dag. Og þá allavega einn af þeim sem hann fær að hlaupa og leika og þefa.
- Hundar þurfa að hitta aðra hunda. Sem hvolpur er mjög mikilvægt upp á framtíðina að gera að venjast því að leika við aðra hunda (og þá ekki bara nágrannahundinn heldur fullt af ókunnugum hundum). Fer yfir hundatungumálið seinna sem útskýrir af hverju.
- Hundar þurfa að fá að nota heilann, ekki bara göngutúra. Að leggja slóð og leyfa hundinum að þefa sig áfram eftir pulsum eða uppáhalds leikfangi gerir rosalegan mikið. Hundurinn verður rólegri og minni líkur á að honum leiðist þegar hann er einn heima.
- Maturinn er mjög mikilvægur og er þar stór kostnaður. Mæli bara með þurrfóðri fyrir hunda og þá bara þannig fóðri sem fæst í dýrabúðum. Pedigree og annað sem fæst í matarbúðum mæli ég ekki með. Ég persónulega hef góða reynslu af Eukanuba og Hills.
- Athygli, hrós og samvera. Hundar eru flokkdýr og þegar við erum að vinna eru þeir heima og bíða. Þegar við komun heim þurfa þeir einmitt þetta þrennt.
Ef hundurinn fær allt þetta daglega, þá eru miklu minni líkur á að hann fari út í það að skemma hluti, naga eitthvað sem má ekki eða byrja gelta á það sem er að gerast úti.
Svo þá er bara spurningin... eruð þið tilbúin að gefa hundinum allt þetta á hverjum degi?
Ef svarið er já, þá mæli ég með að hoppa út í þetta því að hafa hund á heimilinu er rosalega gefandi fyrir börnin og foreldrana líka.
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Fyrsta bloggið um hunda...?
Ég vil byrja á því að kynna mig aðeins.
Ég er 28 ára gömul og uppalin í sveit. Þó svo við ættum hunda þegar ég var lítil í sveitinni þá get ég ekki sagt að ég hafi kynnst hundum fyrr en þegar ég eignaðist minn fyrsta hvolp, border collie hundinn Tommy. Fór með hann á námskeið og þá vaknaði þessi svakalegi áhugi á hundum og hlýðniæfingum.
Ég keypti bækur og las og las og las....
Svo seinna þegar ég flutti til Oslo fór ég að vinna á hundaskóla. Ég byrjaði þar sem aðstoðarhundakennari og lærði alveg rosalega mikið um hvernig á að fara að því að tala við hunda svo þeir skilji.
Þar fékk ég mér aftur hund og hét hún Cille, líka Border Collie enda alveg rosalega gáfuð og flott hundategund.
Tilgangur minn með þessu bloggi er að skrifa um það sem ég kann. Frá fyrsta degi þegar þú ferð að velja þér hvolp til fullorðins hund.
Ég vil taka fram að ég hef ekki lært það sem ég skrifa hér í skóla, heldur bara lesið í bókum og lært þar sem ég var að vinna. Einnig er mikið af því sem ég mun skrifa hér það sem ég hef uppgötvað sjálf. Svo ef þú lest eitthvað sem þú ert ekki sammála máttu alveg koma með athugasemd.
Ég er algjörlega á móti að refsa hundum þegar þeir gera eitthvað "rangt" ég trúi ekki á að "taka í hundinn" til að siða hann til.
Ég tel að það sé hægt að kenna hundum góða hlýðni með því einu að nota athygli, hrós og nammi.
Þegar hundurinn gerir eitthvað sem við viljum ekki að hann geri aftur, þá er einfaldlega tekið burt þetta þrennt (fyrir hundinn eru skammir athygli).
Ég mun útskýra þetta nánar í næstu bloggfærslum.
Bloggar | Breytt 19.9.2007 kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Nýjustu færslur
- Kæri Tómas Oddur - varðandi að hunsa hundareglur
- Hvolpar og hátíðarnar
- Skulum ekki banna fleiri hundategundir...
- hundaþjálfara nám.
- Hversu oft á viku æfiru hundinn?
- Sumir lausagöngu hundar kunna ekki að lesa....
- Spurning frá lesanda. - Sveitahundar
- Páska æfingar
- Innkall
- Fyrsti hvolpurinn/ einkatími
- Taumganga.
- Hundar þurfa að hafa garð?
- Hvernig hundaþjálfari viltu vera?
- Spurningar frá ykkur
- Þeir vilja banna hundahald á Akranesi! (??)
Eldri færslur
- Júní 2012
- Desember 2011
- Ágúst 2011
- Janúar 2011
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Febrúar 2009
- Nóvember 2008
- Október 2008
- Júlí 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
Bloggvinir
Spurning vikunar
Tenglar
Námskeið
- Taumganga stutt námskeið til að læra taumgöngu og ná sambandi við hundinn úti
- Fyrsti hvolpurinn/einkatími hægt er að panta mig í heimsókn til að fræðast um hvolpinn.
- Innkall Auðveldar æfingar til að bæta innkallið.
sæl og takk fyrir góða pósta :)
Mig langar til að spyrja þig hvenær þér finnst vera gott að byrja á að venja hvolp á að vera í búri þegar hann er einn?
Við erum með 3ja mánaða labrador .. og höfum verið að prufa að setja hann í búrið sitt, og fara út í smátíma. Um leið og við löbbum út fer hann yfirleitt að gelta stanslaust.
Ég hef líkað prufað að þykjast fara út en vera hinumegin við vegginn og hlera, og um leið og hann byrjar að gelta slæ ég soldið fast í hurðina. Þetta virðist virka tímabundið, en svo byrjar hann aftur eftir einhvern tíma.
Erum við að byrja of snemma, eða er einhver aðferð sem virkar betur?